Átt þú verk eftir Kristján H. Magnússon?

30.4.2024

Leit stendur yfir að verkum eftir myndlistarmanninn Kristján H. Magnússon. Tilefnið er að sett verður upp sýning á verkum hans í Listasafni Íslands á næsta ári auk þess sem unnið er að veglegri bók um líf hans og list.

Kristján var afkastamikill í listinni þrátt fyrir stuttan feril þar sem hann lést einungis 34 ára gamall, árið 1937. ,,Það eru margir með verk eftir Kristján uppi á vegg hjá sér án þess að vita hver hann var. Þá er gaman að setja þessi verk í samhengi og að fólk átti sig á því hvað það er með í höndunum, “ segir Dagný Heiðdal listafræðingur sem skrifar í bókina um valin verk lilstamannsins. Þá mun Goddur – Guðmundur Oddur Magnússon skrifa um veggspjöld og auglýsingar í fyrirhugaða bók en ritstjóri og aðalhöfundur verksins er Einar Falur Ingólfsson.

Kristján var fyrstur íslenskra myndlistarmanna til að setja upp sýningar í erlendum stórborgum, eins og London, Amsterdam, Stokkhólmi, Boston og New York, og fengu verk hans undantekningarlaust góða dóma. Eins var þeim almennt vel tekið hér heima.

Árið 1952 var haldin vegleg minningarsýning um Kristján í Listamannaskálanum við Austurvöll og önnur var sett upp á Ísafirði, þar sem hann ólst upp, árið 1994. Á sýningunni í Listasafni Íslands næsta vor er stefnt að því að sýna mörg helstu verk listamannsins.

,,Meðal verkefna safnsins er að kynna íslenska myndlist, þar með talið að vekja athygli á eldri listamönnum, “ segir Dagný. ,, Safnið á þrjú verk eftir Kristján og þau hafa verið sýnd oft hjá okkur en það er áhugavert að kynnast honum betur”.

Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum um verk eftir Kristján eru beðnir að hafa samband við Dagnýju Heiðdal, info@listasafn.is , eða ritstjórann Einar Fal einarfalur@gmail.com


mynd:

Kristján H. Magnússon 1903-1937

Blaðadrengur, 1927

LÍ-1166

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17