HRAFNHILDUR ARNARDÓTTIR / SHOPLIFTER Í LISTASAFNI ÍSLANDS

22.5.2017

Opnun sýningarinnar Taugafold VII, föstudaginn 26. maí kl. 20, að listamanninum viðstöddum. Opnunin hefst með ávarpi safnstjóra, Hörpu Þórsdóttur.

Hrafnhildur Arnardóttir (f. 1969), einnig þekkt sem Shoplifter, er íslenskur myndlistarmaður sem búsett er í New York. Á undanförnum 15 árum hefur hún á umfangsmikinn hátt kannað notkun og táknrænt eðli hárs, og sjónræna og listræna möguleika þessarar líkamlegu afurðar. Í verkum sínum fæst hún við sögu þráhyggju mannsins gagnvart hári og hvernig má upplifa hár sem birtingarmynd sköpunar í nútíma menningu, sem tekst á við hugmyndir á mörkum þráhyggju eða blætis. List hennar hverfist að mestu um skúlptúra, staðbundnar innsetningar og veggverk, sem fjalla jafnan um hégóma, sjálfsmynd, tísku, fegurð og goðsagnir í almannavitundinni. Hrafnhildur sækir áhrif frá dægurmenningu og fjöldaframleiðslu, auk alþýðulistar, naívisma og handverks, sem hefur mikil áhrif á sköpun hennar.

Fínlegur húmor gegnir stóru hlutverki í list Hrafnhildar og endurspeglast vel í notkun hennar á miklu magni marglits gervihárs, hárlenginga sem hún hnýtir, flækir og fléttar með hinu fallega og gróteska, og teflir saman upplifun á fjöldaframleiddum munum andspænis þeim einstöku. Hún hefur unnið með listamönnum frá öllum heimshornum, þar á meðal íslensku tónlistarkonunni Björk en fyrir umslag plötu hennar Medúlla  árið 2004 skapaði Hrafnhildur „hár-hjálm“. Árið 2008 starfaði Hrafnhildur með listahópnum a.v.a.f að verki fyrir framhlið MoMA; Samtímalistasafnsins í New York. Meðal nýjustu verka hennar er röð viðamikilla innsetninga, sem ber heitið Nervescape  og hún hefur unnið sérstaklega fyrir stórar stofnanir, s.s. Nervescape IV  á Norræna tvíæringnum í samtímamyndlist – Momentum 8, í Moss, Noregi árið 2015, Nervescape V , í Samtímalistasafni Queensland í Brisbane, Ástralíu árið 2016 og Nervescape VI  í Fílharmóníunni í Los Angeles, Bandaríkjunum fyrr á árinu árið 2017.  

Missið ekki af spjalli sýningarstjóra við listamanninn, sunnudaginn 28. maí kl. 14.

Sýningarstjóri: Birta Guðjónsdóttir. Mynd: Hrafnhildur Arnardóttir - Shoplifter, Nervescape VI , 2016. Innsetning í QUAGOMA - Queensland Art Gallery, Gallery of Modern Art, Australia.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)