SUNNUDAGSLEIÐSÖGN MEÐ SAFNSTJÓRA: JOAN JONAS OG WOODY VASULKA

26.1.2017

Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands verður með leiðsögn um tvær sýningar sunnudaginn 26. febrúar kl. 14.

JOAN JONAS Reanimation detail 2010/2012.

Síðasta sýningarvika á verkum Joan Jonas er gengin í garð. Ekki láta þessa mögnuðu sýningu eins af mikilvægustu listamönnum samtímans fram hjá ykkur fara!Joan Jonas (f. 1936) er frumkvöðull á sviði vídeó- og gjörningalistar og einn þekktasti myndlistarmaður samtímans. Hún starfar enn ötullega að sköpun nýrra verka, nú um fimmtíu árum eftir að hún hóf að sýna verk sín í heimaborg sinni New York í Bandaríkjunum. Hún hefur haft víðtæk áhrif á samferðamenn sína, verk hennar hafa verið sýnd í helstu listasöfnum heims og hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir verk sín. Hún starfar sem prófessor við MIT; Massachussets Institute of Technology, og hefur kennt þar frá árinu 1998. Joan Jonas var fulltrúi Bandaríkjanna á Feneyjatvíæringnum árið 2015.Joan Jonas kom til Íslands á níunda áratug liðinnar aldar og skilaði áhrifunum af þeirri heimsókn í verkinu Volcano Saga , frásagnarmyndbandi þar sem Tilda Swinton fer með hlutverk Guðrúnar Ósvífursdóttur í heitri laug umluktri hrjóstrugu eldfjallalandslagi. Þessi nána vísun í Laxdælu  og drauma Guðrúnar, sem rekur sig eftir verkinu eins og rauður þráður, var forleikur að frekari verkum Jonas byggum á íslenskum bókmenntum, fornum og nýjum. Verk hennar Reanimation,  sem sýnt er í Listasafni Íslands, er sprottið af lestri hennar á Kristnihaldi undir Jökli  eftir Halldór Laxness, örstuttri tilvísun skáldsins í Eyrbyggju , lagðri í munn sögumanni og fjallar um það þegar Þórgunna gengur aftur og finnur mjölið í búrinu til að baka brauð ofan í svanga líkflutningamenn sína.

NÁNAR UM SÝNINGUNA

WOODY VASULKA Art of Memory í Vasulka-stofu

Í tilefni 80 ára afmælis Woody Vasulka (f. 1937) efnir Vasulka-stofa til sérstakrar sýningar á vídeóverkinu Art of Memory, en 30 ár eru liðin síðan verkið var frumsýnt, 1987.Verkið er viðeigandi á þessum tímamótum þar sem áhorfandinn er með áhrifaríkum hætti leiddur inn í fortíðina, þar sem ferðast er um draumkennt og víðáttumikið landslag með skírskotunum til sögunnar.Á sýningunni má einnig sjá brot úr gagnasafni Vasulka-stofu.Steina og Woody Vasulka hafa haldið vel utan um arfleifð sína og varðveitt þau gögn sem tengjast list þeirra og starfi. Við stofnun Vasulka-stofu, undir lok árs 2014, gáfu þau Listasafni Íslands stóran hluta af gagnasafni sínu til varðveislu, en í því er meðal annars að finna upprunaleg listaverk, skissubækur, heimildarmyndir, bókasafn, ljósmyndir, sýningarskrár, viðurkenningar, greinar, plaköt og persónuleg skjöl.

NÁNAR UM SÝNINGUNA

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)