KRAKKAKLÚBBURINN KRUMMI / HANDRITASMIÐJA

5.11.2018

Skrifað á skinn með fjaðrastaf og jurtablekiLaugardaginn 24. nóvember Kl. 14 - 16 

Safnkennari Árnastofnunar, Svanhildur María Gunnarsdóttir, mun leiða börnin inn í heim horfinnar verkmenningar með fræðslu um handverkið sem býr að baki gerð miðaldahandrita eins og það tíðkaðist fyrr á öldum. Má þar nefna verkun skinns í bókfell; blekgerð úr jurtum, berjum o.fl. úr lífríkinu; gerð fjölbreyttra lita úr mismunandi náttúruefnum til skreytinga; pennaskurð af fjöðrum; hönnun á hlífðarkápum úr skinni eða viði og ýmislegt annað sem tilheyrði skrifarastofum/ritstofum miðalda. Börnin fá að spreyta sig við skriftir með tilskorinni fjöður og heimalöguðu jurta- og krækiberjableki á bókfell (sérverkað kálfskinn) og geta við það sett sig í spor forfeðra og -mæðra sem skráðu hinar fornu bækur. Ritsmíðarnar, barnanna eigin handrit, taka þau svo með sér heim við verklok.

Krakkaklúbburinn Krummi stendur fyrir fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá í hverjum mánuði þar sem kátum krökkum er boðið að fræðast um listaverkin í safneign Listasafns Íslands, skapa listaverk og leika sér í fallegu umhverfi.

Með stofnun þessa nýja krakkaklúbbs viljum við veita börnum og  fjölskyldum þeirra tækifæri til þess að njóta góðra stunda saman á Listasafninu. Dagskráin er vönduð og öllum er velkomið að taka þátt, sér að kostnaðarlausu.Krakkaklúbburinn Krummi er fyrir börn á öllum aldri.

Með Krakkaklúbbnum Krumma vill Listasafn Íslands heiðra Ásgerði Búadóttur myndlistarmann með því að nota skemmtilegar og líflegar klippimyndir úr barnabókinni Rauði hatturinn og krummi eftir Ásgerði, sem innblástur og merki barnastarfsins. 

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)