SKAPANDI ANDSPYRNA: FRAMSÆKNIR LISTAMENN Í SKUGGA FASISMANS

6.11.2017

Jón Proppé listheimspekingur flytur erindið Skapandi andspyrna: Framsæknir listamenn í skugga fasismans í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar, sunnudaginn 12. nóvember kl. 15. 

Jón mun fjalla um mótunarár danskrar framúrstefnulistar í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar þar sem íslenskir listamenn tóku drjúgan þátt, einkum Sigurjón Ólafsson og Svavar Guðnason. Eftir hernám Þjóðverja í apríl 1940 gaf þessi hópur út tímaritið Helhesten þar sem þau þróuðu hugmyndir sínar áfram undir merkjum "skapandi andspyrnu". Asger Jorn var einn af þeim yngstu í hópnum en hugmyndaauðgi hans og sýn á listir, stjórnmál og heimspeki hafði djúp áhrif á hin þótt leiðir skildu fljótlega eftir stríðslok. Listamennirnir sem þarna komu að mörkuðu djúp spor í evrópska listasögu, hver á sinn hátt, og þá ekki síst á Íslandi.

Jón Proppé (fæddur 1962) lærði heimspeki við Illinois-háskóla í Bandaríkjunum en hefur búið og starfað í Reykjavík í nær þrjá áratugi. Hann hefur skrifað mikið um menningu og listir, hundruð sýningarumfjallana, greina og bókakafla, auk texta í á annað hundrað sýningarskráa. Jón er einn höfunda nýju listasögunnar sem út kom í fimm bindum árið 2011 og vinnur nú að fleiri bókum um íslenska myndlist og menningu, ásamt því að sinna stundakennslu við Listaháskóla Íslands og sýningarstjórnun fyrir listasöfn. 

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)