SUNNUDAGSLEIÐSÖGN: FJÁRSJÓÐUR ÞJÓÐAR

17.11.2016

Sunnudaginn 9. apríl kl. 14.00 mun Rakel Pétursdóttir, safnafræðingur og deildarstjóri rannsókna og sérsafna við Listasafn Íslands leiða gesti um sýninguna Fjársjóður þjóðar, valin verk úr safneign.

Rakel mun stikla á stóru í gegnum sögu og þróun Listasafns Íslands. Hún mun fjalla um aðföng safnsins í sögulegu og listrænu samhengi og tengja alþjóðlega strauma og stefnur í myndlist við valin verk á sýningunni.  Þátttaka gesta í þróun samtalsins mun verða leiðarstef þar sem sitt sýnist hverjum og staldrað verður við eftir þörfum en verk sýningarinnar eru sett upp í tímaröð. Horft verður gagnrýnum augum á gersemarnar þar sem velta má vöngum yfir spurningum á borð við; Hvers vegna þjóðarsafn? Hver skapar söguna? Einnig má velta fyrir sér bæði hugmyndum og orsakasamhengi margvíslegra þátta er snerta völd og áhrif í íslenskri myndlist; mannréttindi og menningararf, menningarpólitík og raunveruleika, sjálfsmynd einstaklinga og þjóðar, forspár nýrra tíma, vægi og virðingu fyrir listrænni sköpun, myndlist sem skapandi afl þjóðfélagslegra umbreytinga og ekki síst töfrum og galdri hvunndagsins. 

 

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)