Gust of Wind
1941
Jóhannes Kjarval 1885-1972
Túlkun Kjarvals náði ekki einungis til áþreifanlegrar jarðarinnar, landsins í allri sinni dýrð, heldur einnig til veðursins. Átti hann það til að bregða sér út með trönurnar til að fanga árstíðirnar með sínum veðrum og vindum, bæði dag sem nótt. Eitt er víst samtal hans við náttúruna var magnað. Vindstroka kann að vekja tilfinningar, kuldahroll eða unaðsstund sem hinn blíðasti blær og allt þar á milli. Í verkum Kjarvals sjáum við stundum verur sem eru táknmyndir hinnar lifandi náttúru, bergbúans eða vindsins. Hér kemur vindstrokan sem ung stúlka í bláum kjól umvafin gulbrúnum mosa og blágrænu hraunlandslagi. Með því að tileinka sér helstu stíla og stefnur í málaralist 20. aldar má segja að Kjarval hafi tekist að bræða saman sinn eigin stíl með þrotlausum rannsóknum. Vinna hans við trönurnar átti hug hans allan og það var honum meðvituð köllun að túlka íslenska náttúru í öllum sínum fjölbreytileika og ljósbrigðum. RP
![](/_next/image/?url=https%3A%2F%2Fskraning.sarpur.is%2FUploads%2FImages%2F1557882.jpg&w=828&q=75)