Dagskrá

SUNNUDAGSLEIÐSÖGN - MUGGUR

  • 14.11.2021, 14:00 - 15:00, Listasafn Íslands

14. nóvember
Muggur - Sunnudagsleiðsögn sérfræðings
Kl. 14


Sunnudagsleiðsögn sérfræðings um sýninguna Guðmundur Thorsteinsson - Muggur. Sérstæður myndheimur Muggs spannar víð svið: ævintýraheima þar sem fíngerðir prinsar og prinsessur dvelja í fögrum höllum, tröllaheima myrkurs og ógnar, landslag og sveitasælu á Íslandi, ferðaminningar frá framandi stöðum, náðarheim trúarinnar þar sem Kristur læknar sjúka, en einnig skoplegar og skondnar teikningar og þjóðsögur.

Aðgangseyrir á safnið gildir, ókeypis fyrir meðlimi Selmuklúbbsins.

Nánar um sýninguna:

Muggur
Guðmundur Thorsteinsson 1891–1924

Sagt var að allt sem Muggur snerti yrði að listaverki og mótaðist af hinum einstaka persónuleika hans.
Guðmundur Thorsteinsson, alltaf kallaður Muggur, fæddist á Bíldudal 1891. Hann fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Kaupmannahafnar 1903, þar sem hann átti þess kost að læra myndlist, fyrst í Teknisk Selskabs Skole og síðan við Konunglega listaháskólann. Listferill hans að námi loknu spannaði einungis tæp tíu ár, en hann lést úr berklum 1924. Á þessum stutta ferli náði hann að skapa einstakan og persónulegan myndheim.
Á sýningunni verður skyggnst inn í þennan sérstæða myndheim Muggs sem spannar víð svið: ævintýraheima þar sem fíngerðir prinsar og prinsessur dvelja í fögrum höllum, tröllaheima myrkurs og ógnar, landslag og sveitasælu á Íslandi, ferðaminningar frá framandi stöðum, náðarheim trúarinnar þar sem Kristur læknar sjúka, en einnig skoplegar og skondnar teikningar og þjóðsögur. Hann fann hugmyndum sínum farveg með ólíkum miðlum og aðferðum; teiknaði með blýanti, krít og penna, vatnslitaði, málaði með olíulitum, gerði klippimyndir úr glanspappír, bróderaði, saumaði og skar út í tré. Viðfangsefni hans voru ámóta margbreytileg, hann myndskreytti bækur, teiknaði spil, auglýsingar og jólamerki og síðast en ekki síst samdi hann og myndskreytti ævintýrið um Dimmalimm, sem eitt og sér er nóg til að halda nafni hans á lofti um ókomna tíð.

Á sýningunni verður leitast við að gera öllum þáttum myndsköpunar hans skil og setja hana í samhengi við myndlist samtíma hans á Íslandi og á Norðurlöndum.

Sýningarstjóri er Kristín G. Guðnadóttir, listfræðingur.

Mynd: Hin ungu listasystkin / The Young Artistic Siblings, 1915
Vatnslitamynd / Watercolour, 35 x 30 cm
Einkaeign / Private collection