Vefsýning á Sarpi - Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá

Verk Kristínar Jónsdóttur frá Munkaþverá í Listasafni Íslands - Vefsýning.

Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá hlaut Heiðursviðurkenningu Myndlistarráðs árið 2021 fyrir framlag sitt til íslenskrar myndlistar og er þetta í fyrsta skipti sem að Myndlistarráð veitir slíka viðurkenningu. Með viðurkenningunni vill ráðið heiðra listamann sem á að baki langan og farsælan feril og hefur markað spor í sögu íslenskrar myndlistar.

Með íhugulum verkum sínum hefur Kristín vakið okkur til umhugsunar um siðferðileg álitamál í fortíð og nútíð og beint sjónum okkar að tímanum og hverfulleikanum, viðkvæmri náttúru landsins og tjáningarríku tungumálinu. Auk þess hefur Kristín fært menningarsögulega mikilvægan efnivið, ullina, inn í samtímalistina og sýnt fram á hvílíkan fjársjóð við eigum í íslensku ullinni

Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá á að baki yfir 20 einkasýningar á Íslandi, í Bandaríkjunum og Kanada. Þá hefur hún tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hér á landi og erlendis. Verk Kristínar má finna í helstu listasöfnum landsins en einnig í söfnum í Evrópu og Bandaríkjunum. Kristín hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, meðal annars silfurverðlaun Alþjóðlega textílþríæringsins í Lódz í Póllandi árið 1992. Kristín hefur verið virkur félagi í Textílfélaginu og var brautryðjandi hér á landi við gerð verka úr þæfðri ull.

https://sarpur.is/Syning.aspx?ID=878