Og skorið - Samklipp í íslenskri myndlist

Samsýning

7.9.2024 — 1.3.2025

Listasafnið
Sigurjón Jóhannsson, Hvað er að? What is wrong?
Mannamyndir

Um er að ræða rannsóknartengda sýningu þar sem sjónum verður beint að samklippi sem aðferð og miðli í íslenskri myndlist á tímabili sem spannar síðari hluta 19. aldar til samtímans. Hugtakið samklipp, eða collage, vísar til þeirrar aðferðar að klippa og líma saman pappír eða önnur efni á tvívíðan flöt. Hugtakið var fyrst notað um myndlistarverk í tengslum við framúrstefnuhreyfingar í evrópskri myndlist á fyrstu áratugum 20. aldar en frægt er þegar kúbistarnir hófu að líma iðnframleidd efni og hversdagslega hluti eins og dagblöð inn í verk sín og rjúfa þannig hin helgu vé listaverksins. Allar götur síðan hefur samklipp verið birtingarmynd og vettvangur framsækinna tilrauna listamanna í könnun þeirra á nýjum tjáningarmöguleikum og viðbrögðum við hraða og umbyltingum nútímans. Samklipp er í eðli sínu brotakennt form sem endurspeglar truflanir, rof og fráhvarf frá eldri listsögulegum hefðum og hefur verið áberandi byggingarþáttur í myndlist, gjarnan í tengslum við aðra miðla, aðferðir og tækni í samtímalist, sem og önnur svið menningar. Íslensk myndlist hefur ekki farið varhluta af sviptingum nútímans og með því að skyggnast sérstaklega eftir þætti samklipps í íslenskri nútímalistasögu og í verkum samtímalistamanna, má öðlast innsýn í viðbrögð við slíkum hræringum og hvernig listamenn hér á landi hafa tileinkað sér nýjungar í listrænni tjáningu. Sýningin mun byggja á safneign Listasafns Íslands og með vali verka verður leitast við að varpa ljósi á það hvernig samklipp sem aðferð og miðill endurspeglar tilraunir með ný form og tækni og með hvaða hætti samsett bygging verkanna tjáir ný viðhorf og ýmis samfélagsleg álitamál. Meðal listamanna sem eiga munu verk á sýningunni má nefna Mugg – Guðmund Thorsteinsson, Finn Jónsson, Nínu Tryggvadóttur, Þorvald Skúlason, Gerði Helgadóttur, Ragnheiði Jónsdóttur Ream, Erró, Dieter Roth, Sigurjón Jóhannsson, Rósku, Eyborgu Guðmundsdóttur, Þórð Ben Sveinsson, Braga Ásgeirsson, Þorvald Þorsteinsson, Önnu Hallin, Olgu Bergmann, Helga Hjaltalín Eyjólfsson, Guðnýju Rósu Ingimarsdóttur, Áslaugu Írisi Katrínu Friðjónsdóttur og Melanie Ubaldo. 

Salur

1

&

3

&

4

7.9.2024 1.3.2025

Sýningarstjórar

Anna Jóhannsdóttir

Vigdís Rún Jónsdóttir

Verkefnastjóri sýninga

Vigdís Rún Jónsdóttir

Textar

Anna Jóhannsdóttir

Vigdís Rún Jónsdóttir

Umsjón með viðburðum og fræðslu

Ragnheiður Vignisdóttir

Markaðs- og kynningarmál

Guðrún Jóna Halldórsdóttir

Umsjón tæknimála og ljósmyndun

Sigurður Gunnarsson

Forvarsla

Nathalie Jacqueminet

Steinunn Harðardóttir

4.3.2023 — 1.10.2023

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum.