VINNUSTAÐIR ALVÖRU KARLA - ÍVAR BRYNJÓLFSSON

  • 11.3.2010 - 11.4.2010, Listasafn Íslands

Ívar Brynjólfsson (f. 1960) á sér margslungnari feril sem ljósmyndari en flestir kollega hans. Hann hefur lengi tekið skarpar og undurfagrar myndir fyrir Þjóðminjasafn Íslands og því hljóta margir að reka upp stór augu þegar þeir sjá myndir hans af vinnustöðum karla. Van Gogh málaði Sólblóm sín, beggja vegna Madame Roulin, sem rjátlar við talnabandið í ruggustólnum. Þannig hugsaði hann sér þrískipta altaristöflu sem prentuð yrði fyrir bretónska sjómenn á Íslandsmiðum til að hafa í lúkarnum. Allir karlar virðast þurfa sínar altaristöflur og þær finnur Ívar í skotinu við skrifborðið á verkstæðum smiða og bifvélavirkja. Þetta eru ekki guðhræddar konur með talnaband, en konur engu að síður.