ANGURVÆRÐ Í MINNI

  • 11.3.2010 - 2.5.2010, Listasafn Íslands

Á sýningunni Angurværð í minni eru verk eftir fjóra listamenn, Amelie von Wulffen, Birgi Snæbjörn Birgisson, Helga Hjaltalín Eyjólfsson og Helga Þorgils Friðjónsson, sem fjalla um ásælni minninganna. Ef til vill er það vegna þess hve minningar eru bókmenntalegar sem við gleymum sjónhendingunni, myndinni sem birtist minninu eins og dauft leiftur, milliliða- og frásagnarlaust. Þannig augnablik virðast vera uppistaðan í verkum Amelie von Wulffen og fyrirferðin ryður sér braut inn í raunveruleikann og skekkir rýmið með svipuðu offorsi og Carl Fredrik Hill brenglaði víddirnar í teikningum sínum eða Leonardo leyfði sér í hvarfpunktaleiknum í Vitringateikningu sinni sem var skilin eftir ókláruð, eins og ætla mætti að væri tilfellið í svo mörgum málverkum von Wulffen. Hins vegar gengur Birgir Snæbjörn bókmenntunum bókstaflega á hönd með því að endurrita, orð fyrir orð, upplýsingar um vændiskonur Parísarborgar á 19. öld. Helgi Hjaltalín nemur staðar við minni sem hann hefur alltaf fyrir augunum og setur ógleymanlegan svip á nánasta umhverfi hans um leið og það er nær ósýnilegt þeim sem ekki þekkja til staðhátta. Fyrir nafna hans, Helga Þorgils Friðjónssyni, er angurværð í minni fólgin í kraftbirtingu hversdagsins; til dæmis gnægtaborðinu sem opinberast í hollenskri málaralist 17. aldar í formi kyrralífsmynda af hlöðnum matborðum, en koma fram í útvarpsfréttum okkar tíma sem afla- og gæftafregnir. Þannig verður hversdagshugdettan með tíð og tíma að angurværum gleðileik.