Listasafn Íslands við Tjörnina
Opið 10:00 - 22:00
12:00
Pop up outlet safnbúðarinnar á Verkstæðinu
Við tökum til á lager safnbúðar Listasafns Íslands:
Rýmingarsala svo lengi sem byrgðir endast. Allt á 50—80% afslætti.
17:00
Leiðsögn sýningarstjóra um sýninguna Ráðgátan um Rauðmagann og aðrar sögur um eftirlíkingar og falsanir
Sýningarstjórinn Dagný Heiðdal og forvörðurinn Ólafur Ingi Jónsson taka á móti gestum og leiða um sýninguna Ráðgátan um Rauðmagann og aðrar sögur um eftirlíkingar og falsanir.
Í safneign Listasafns Íslands leynast nokkur fölsuð verk sem hafa borist safninu með margvíslegum hætti. Undanfarin misseri hafa starfsmenn safnsins rannsakað þessi verk og hefur þá margt forvitnilegt komið í ljós. Markmið sýningarinnar er að auka vitneskju almennings um málverkafalsanir.
18:00
Leiðsögn sýningastjóra um The Green Land
Pari Stave sýningarstjóri fjallar um verk Inuks Silis Höegh The Green Land. Verkið, sem er frá árinu 2021, er 34 mínútna löng vídeóinnsetning með hljóðmynd eftir danska hljóðlistamanninn Jacob Kirkegaard. Inuk Silis Høegh fæddist í Qaqortoq á Suður-Grænlandi árið 1972 og er kvikmyndaleikstjóri og konseptlistamaður sem vinnur gjarnan á mörkum þessara listgreina. The Green Land er tekið upp í og umhverfis Nuuk og Manisoq á Grænlandi. Verkið er sjónræn hugleiðing um landslag sem er í senn ósnortið og óstöðugt sökum inngripa mannsins og loftslagsbreytinga. Verkið er sýnt í stöðugri hringrás og hverfist um fjögur frumöfl; eld, jörð, vatn og loft – sem birtast sem óræð, græn nærvera í tímabundnum landslagsgjörningum.
Leiðsögnin fer fram á ensku.
19:00
Leiðsögn sýningarstjóra um sýninguna Þetta er mjög stór tala (Commerzbau)
Pari Stave sýningarstjóri leiðir gesti um sýninguna Þetta er mjög stór tala (Commerzbau) sem var framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2024 en er nú á Listasafni Íslands. Hildigunnur Birgisdóttir er kunn fyrir að gefa hinu smáa gaum í listsköpun sinni og varpa gagnrýnu ljósi á hnattræn framleiðslu- og dreifingarkerfi, sem og hið undarlega lífshlaup varningsins sem þessi kerfi skapa. Í verkum sínum dregur hún athyglina að litlum, einnota hlutum sem gjarnan eru fjöldaframleiddir fylgifiskar neyslumenningarinnar: umbúðum, verðmiðum, merkingum og útstillingareiningum. Hún fær þessum hlutum nýtt hlutverk en gildi þeirra og merking gjörbreytist þegar komið er út fyrir hið upprunalega samhengi þeirra.
Leiðsögnin fer fram á ensku.
20:00
Einar Falur Ingólfsson leiðir gesti um sýninguna Endurlit
Málverk Kristjáns Helga Magnússonar vöktu mikla hrifningu þegar hann geystist fram á myndlistarvettvanginn fyrir tæpum 100 árum. Verk hans vöktu ekki aðeins athygli hér á landi því hann hélt einnig sýningar í stórborgum austan hafs og vesta. Á Íslandi hlutu verk hans hins vegar blendnar viðtökur og í dag eru þau fáum kunn og nafn hans heyrist sjaldan í umræðunni um íslenska myndlist. Engu að síður er framlag hans til listasögunnar töluvert að vöxtum og áhugavert fyrir margra hluta sakir. Á væntanlegri yfirlitssýningu beinir Listasafn Íslands sjónum að verkum þessa skammlífa listamanns sem lést aðeins 34 ára að aldri árið 1937 eftir stuttan en áhugaverðan feril.
---------------------------
Safnahúsið við Hverfisgötu
Opið 10:00 - 22:00
16:00 Fjárlögin/ Staðfest
Að þessu sinni ræðst tónlistarhópurinn Gadus Morhua til atlögu við íslensku fjárlögin, söngvasafn Sigfúsar Einarssonar og Halldórs Jónassonar frá árunum 1915-1916. Söngvasafnið var svo vinsælt að upp úr því var sungið á hverju heimili áratugum saman. Vinsældir fjárlaganna svokölluðu eru ef til vill að dala með minnkandi söng á heimilum landans, en Gadus Morhua tekur þau nú upp á arma sína á sinn einstaka hátt.
Hryggjarstykkið í efnisskrá Gadus Morhua eru íslensk og erlend þjóðlög, klassísk einsöngslög í eigin útsetningum og frumsamið efni þar sem fléttast saman hljómheimar barokksins og baðstofunnar á nýstárlegan hátt. Fjárlögin sæta sömu rannsókn og meðferð. Langspil, barokkselló, flauta og fáein slagverkshljóðfæri eru hljóðfærakostur sveitarinnar, sem og þrjár söngraddir, og býður þetta upp á víða útsetningarmöguleika, þó einfalt og á vissan hátt stílhreint sé. Og til að halda arfi í samhengi við nýja sköpun og áframhaldandi líf tvinnar Gadus Morhua saman við herlegheitin frumsaminni tónlist og ljóðum til að brjóta upp fjárlagasönginn. Efnisskráin, þ.e. tónleikarnir, spretta því úr gamalkunnum sönglögum sem voru og eru þjóðinni harla kær. En opnast um leið mót forvitnilegri framtíðinni, með lúmskum, ferskum vindum pönks og framúrstefnu.
Gadus Morhua á Menningarnótt í Safnahúsinu skipa:
Björk Níelsdóttir - söngur, langspil og slagverk
Eyjólfur Eyjólfsson - söngur, barokkflauta og langspil
Sigurður Halldórsson - söngur, langspil og barokkselló