• Listasafn Sigurjóns

SUMARTÓNLEIKAR Í LISTASAFNI SIGURJÓNS ÓLAFSSONAR

Sumartónleikar Listasafns Sigurjóns Ólafssonar 2018 


Að hlýða á sumartónleika Listasafns Sigurjóns Ólafssonar er að upplifa sumarkvöld við
sæinn með ljúfri tónlist og heimsklassa höggmyndalist − umvafin sögu staðarins, allt frá landnámi til nútíma.

Tónlistin hefur ætíð skipað háan sess í menningarstarfi Listasafns Sigurjóns Ólafssonar.
Heimili þeirra hjóna Birgittu og Sigurjóns ómaði af tónlist, öll fjögur börn þeirra lærðu á hljóðfæri og þrjú þeirra lögðu tónlist fyrir sig.
Þann 21. október verða liðin 30 ár frá því að safnið opnaði í fyrrum vinnustofu og hluta heimilis Sigurjóns á Laugarnesi. Við þá endurbyggingu var þess gætt að salurinn hentaði einnig sem best til tónleika og þangað var keyptur vandaður Bösendorfer konsertflygill.
Fjöldi tónleika var haldinn í salnum strax á fyrstu dögum eftir að safnið var opnað, en brátt komst sú skipan á að halda sérstaka tónleikaröð yfir sumarið, en á þeim árum var fátt um að vera í menningarlífi Reykjavíkur á sumrin. Sumartónleikar Listasafns Sigurjóns teljast þrítugir í ár og njóta fádæma vinsælda.

Á þessu þrítugasta tónleikasumri verður gítarhljómur áberandi. Reynir Hauksson gítarleikari og tónskáld hefur tónleikaröðina þann 3. júlí með seiðandi tónlist frá Andalúsíu, eftir spönsk tónskáld og sjálfan sig. Guitar Islancio stígur á stokk og heldur upp á 20 ára starfsafmæli sitt með tónleikum þann 31. júlí og danski verðlaunagítarleikarinn Søren Bødker Madsen lýkur tónleikaröðinni 14. ágúst ásamt Hlíf Sigurjónsdóttur fiðluleikara.
Þrennir söngtónleikar hljóma í salnum, Lilja Guðmundsdóttir sópran og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari flytja efnisskrána „Draumar um ást“, Sigrún Björk Sævarsdóttir sópran og Kristín Einarsdóttir Mäntylä messósópran, flytja efnisskrá sem þær nefna „Í dag skein sól“ ásamt
ítalska píanóleikaranum Elena Postumi og Guja Sandholt sópran og Heleen Vegter píanóleikari frá Hollandi flytja „Æskuástir og ævintýri“.
Þann 24. júlí munu Björg Brjánsdótt­ir flautuleik­ari og Jane Ade Sutarjo píanóleikari flytja
vandaða klassíska dagskrá með verkum fyrir flautu og píanó.

Tónleikarnir hefjast að vanda klukkan 20:30 og standa í um það bil eina klukkustund.
Kaffistofa safnsins er opin eftir tónleikana og þar gefst tónleikagestum kostur á að
hitta flytjendurna.

Gefinn hefur verið út bæklingur um tónleikaröðina sem hægt er að nálgast í safninu eða fá sendan heim, ef óskað er eftir í síma 553 2906 eða hjá LSO@LSO.is. Á netsíðu www.LSO.is eru ætíð nýjustu upplýsingar um tónleika, meðal annars efnisskrár sérhverra tónleika
jafnóðum og þær eru tilbúnar.

Hér má sjá dagskrá sumarsins.