Ísabrot – jöklar í íslenskri myndlist

Jöklar eru órjúfanlegur hluti af kennileiti Íslands og sjálfsmynd þjóðarinnar. Frumkvöðlar íslenskrar málaralistar leituðust við að fanga sjónarspil jöklanna í verkum sínum frá fyrri hluta 20. aldar, þar sem litur, form og áhrif þeirra á umhverfi sitt urðu að viðfangsefni listmálaranna. Áhugavert er að sjá fjölbreytta nálgun listamanna þegar kemur að jöklum, sem enn eru botnlaus uppspretta innblásturs. Frá skrásetningu landslags og rómantískrar upphafningar til myndverka sem takast á við jökulinn sem huglægt og merkingarþrungið fyrirbæri.   
Í nútímanum eru jöklar einnig birtingarmynd loftlagsbreytinga þar sem knýjandi þörf er á vitundarvakningu fyrir bráðnun jökla og þeirra afleiðinga sem slíkar hamfarir hafa í för með sér.  

Í verkefninu Ísabrot eru listaverk valin til umfjöllunar þar sem listamenn vinna með jökla með ólíkum efnum og aðferðum. Verkin eru rædd með aðferðum Sjónarafls – þjálfun í myndlæsi. Listaverkin hvetja til samræðna og auka við þekkingu á myndlist, sem og málefnum náttúrunnar. Hægt er að nálgast listaverkin úr óteljandi áttum, spyrja spurninga og gefa gaum að því sem við sjáum.  Þannig verður til þekking sem að situr eftir í hugum okkar, en með myndlist má læra um bæði sögu, samfélagið og umhverfið þannig að skilningur okkar á heiminum dýpki.

12 listamenn munu stýra ólíkum smiðjum á skólaárinu 2023 – 2024 sem að allar hverfast um jökla, mismunandi nálganir á þeim og úrvinnslu sem að síðan safnast saman í þekkingarbanka, er miðlað verður áfram að verkefni loknu til kennara um land allt. Í smiðjunum verður meðal annars unnið með: Himingeiminn og rannsóknir á bráðnun jökla með gögnum frá gervitunglum, jurtir sem að koma undan jöklum, form og áferð jökla, jökla sem vettvang görninga, minningar um jökla sem eru ekki lengur til, hljóðheima jökla, litaheim jökla, kortlagningu og hreyfingu þeirra.
Þeir þátttökuskólar sem ekki sjá sér fært að heimsækja Safnahúsið fá listasmiðjurnar til sín í skólastofuna með rafrænum hætti.


Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði Íslands.


Áhugasamir kennarar eru hvattir til þess að senda póst á netfangið mennt@listasafn.is eða á netfangið ingibjorg.hannesdottir@listasafn.is

Hér má lesa greinina Samtíma áskoranir og sjálfbærnimenntun eftir Dr. Ásthildi Jónsdóttur, sýningarstjóra Viðnáms.
Hér má lesa um jökla í aðgengilegum texta eftir Nínu Aradóttur, doktorsnema í jöklajarðfræði.


Því lengur sem við horfum, því meira sjáum við! 

Ef jökullinn gæti talað

Að teikna jökul

Form og áferð jökla

Skilaboð frá geimnum

Litbrigði jökla

Umbreyting jökla

Hljóðheimur jökla

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)