LÍÁJ 311, Ásgrímur Jónsson, Nátttröllið á glugganum, The Night Troll at the Window, Pappír, Málning/Litur, Vatnslitur, Þjóðsagnamyndir

Korrió og Dillidó — Þjóðsögur

Verið velkomin í Safnahúsið þar sem myndheimur íslenskra þjóðsagna og ævintýra sem Ásgrímur Jónsson skapaði með verkum sínum er aðgengilegur.

Bókun skólahópa

Tekið er á móti öllum skólastigum þar sem heimsóknin er aðlöguð að aldri nemenda.
Hægt er að skrá skólahópa á bókunarsíðu safnsins hér.

Álfar, tröll og draugar sem lifað höfðu með óljósum hætti í hugskoti þjóðarinnar í rökkri baðstofunnar, tóku á sig skýra mynd í verkum Ásgríms, en hann sýndi slík verk í fyrsta sinn á Íslandi árið 1905.

Ásgrímur Jónsson 1876 - 1958

Ásgrímur Jónsson er einn af brautryðjendum íslenskrar myndlistar, hann hóf myndlistarnám í Kaupmannahöfn 1897 og hélt sína fyrstu sýningu hér á landi árið 1903. Frá upphafi var íslensk náttúra aðalviðfangsefni Ásgríms en snemma hóf hann einnig að sækja sér efnivið í íslenskar þjóðsögur og ævintýri sem höfðu ekki verið myndskreytt fram að því. Tröllasögur voru honum mjög hugleiknar en einnig myndskreytti hann sögur af huldufólki og draugum, útilegumannasögur, galdrasögur og helgisögur. Ásgrímur ólst upp við slíkar frásagnir í Flóanum og vafalítið hefur efnisvalið mótast bæði af uppruna hans í íslenskri alþýðumenningu og þjóðernisrómantík 19. aldar, en einnig af straumum í norrænni myndlist þess tíma, einkum táknhyggju.

Álfar og huldufólk

Álfar og huldufólk eru vættir sem líkjast mönnum í útliti og háttum en eru fríðari og tígulegri og búa í íburðarmiklum híbýlum í klettum, hólum og steinum um allt land. Eins og nafnið bendir til er huldufólk almennt hulið sjónum manna en getur þó birst þeim sem eru skyggnir eða huldufólkið velur sjálft að eiga samskipti við. Margar sögur eru af ríkulegum launum til þeirra sem liðsinna huldufólki, en sé því unnið mein – til dæmis bústöðum þess raskað – er talið að það valdi þeim mönnum óhamingju sem hlut eiga að máli. Sögurnar kenna þannig góða siði og virðingu fyrir umhverfinu, en eru einnig til vitnis um drauma um betra líf og ríkidæmi.

Sögur af álfum hafa líklega borist hingað með landnámsmönnum frá Írlandi og verið aðlagaðar íslenskum aðstæðum en þær eiga einnig rætur að rekja til norrænnar goðafræði.

"Fljúgðu, fljúgðu klæði", "Fly away, Magic Cloth", Ásgrímur Jónsson, Þjóðsagnamyndir

Tröll

Tröll eru stórvaxnar vættir í mannsmynd sem oft eru vanskapaðar og illviljaðar, jafnvel mannætur, og búa í björgum, hömrum og hellum. Vafalítið hafa sögur af tröllum borist hingað með landnámsmönnum en tröll þekkjast í norrænni þjóðtrú frá fornu fari og eru skyld jötnum í norrænni goðafræði. Víða hér á landi eru örnefni sem minna á tröll og frásagnir af nátttröllum sem hafa dagað uppi og orðið að steini tengjast fjölmörgum klettum og dröngum.
Ásgrími Jónssyni var einkar lagið að teikna tröll og myndir hans þar sem þau koma við sögu skipta hundruðum. Oft er myndefnið klettar og drangar sem ummyndast í grimmar og illgjarnar verur sem ógna mönnum á ferðum þeirra um óbyggðir. Sameiginlegt með þessum myndaflokkum er maðurinn andspænis ógnaröflum, því sem er stærra og sterkara en hann sjálfur, en einnig túlkar hann sakleysið og fegurðina andspænis svikum og ljótleika. Þessar andstæður voru þekkt minni í táknsærri myndlist og virðist sem Ásgrímur hafi meðvitað eða ómeðvitað vísað til þess í túlkun sinni á ævintýrum.

Einnig voru honum hugleikin ævintýri sem segja frá ungum mönnum á flótta undan óðum skessum eða ungum stúlkum í klóm ógurlegs risa og skipar sagan af Mjaðveigu Mánadóttur þar sérstakan sess.

LÍÁJ 1206, Ásgrímur Jónsson, Mjaðveig Mánadóttir, Þjóðsagnamyndir

Búkolla

Sagan um Búkollu er líklega sú þjóðsaga sem flestir Íslendingar þekkja en þar segir frá samskiptum stráks og kýrinnar Búkollu við tvær skessur. Búkolla kann mannamál og getur breytt halahárum sínum í fljót, bál og bjarg sem enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi. Þó að Búkolla sé íslensk er minnið í sögunni, um flótta frá óvætti og umbreytingu einhvers sem hinn mennski maður kastar aftur fyrir sig, sameiginlegt mörgum ævintýrum víða um heim.

Baulaðu Búkolla, ef þú ert enn á lífi!

Draugar

Draugatrú er mjög forn og var almenn á Íslandi fram á 19. öld og þekkist jafnvel enn í dag.
Djákninn á Myrká er ein þekktasta draugasaga þjóðarinnar og fjallar um dauðan mann, djáknann á Myrká, sem kemur að sækja unnustu sína sem veit ekki af andláti hans. Hún heldur að þau séu á leið á jólagleði en í raun ætlar djákninn að taka hana með sér í gröfina. Fyrir snarræði stúlkunnar bjargast hún frá bráðum dauða á síðustu stundu. Alla tíð var þessi áhrifamikla saga Ásgrími hugleikið viðfangsefni sem birtist í stórum olíumálverkum, litríkum vatnslitamyndum og fjölmörgum teikningum. Sýna þessar fjölbreyttu myndir vel tök hans á mismunandi miðlum og áhugaverða þróun í list hans, frá þungbúnum og fíngerðum verkum við upphaf ferilsins að litríkum og tjáningarfullum verkum síðar á ævinni.

Íslenskar þjóðsögur geyma fjölmargar sögur af draugum, sem eru ýmist afturgöngur, uppvakningar eða fylgjur, og láta þeir yfirleitt illt af sér leiða.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)