Baráttan um gullið

Samsýning

24.4.2024 — 9.6.2024

Safnahúsið

Á HönnunarMars 2024 mun Listasafn Íslands sýna myndverk og smíðisgripi eftir Finn Jónsson (1892–1993) og Jóhannes Jóhannesson (1921–1998), en báðir lærðu þeir gull- og silfursmíði áður en þeir lögðu myndlistina fyrir sig. Gullsmiðir í Félagi íslenskra gullsmiða munu á sama tíma tefla fram nýrri smíði sem hver og einn gullsmiður tengir listaverki á sýningunni Viðnám í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Finnur Jónsson var einn virtasti listamaður þjóðarinnar og sýndi abstraktverk fyrstur íslenskra myndlistarmanna, fyrst í Berlín á vegum hins fræga Sturm-hóps en síðar á sögufrægri sýningu í Reykjavík árið 1925. Árið 1985 gáfu Finnur og kona hans Guðný Elísdóttir Listasafni Íslands alls 850 verk eftir Finn, þar á meðal meirihluta abstraktverka hans frá þriðja áratugnum, en einnig skissubækur, teikningar, bréfa- og heimildasafn, ljósmyndir og silfurgripi. Í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá stofnun Félags íslenskra gullsmiða, sýnir Listasafn Íslands nú í fyrsta sinn um 60 silfurgripi sem Finnur ánafnaði safninu. Finnur sat í stjórn félagsins í mörg ár og árið 1985 var hann gerður að heiðursfélaga í Félagi íslenskra gullsmiða.

Jóhannes Jóhannesson átti einnig að baki langan og litríkan listferil, fyrst og fremst sem málari en einnig sem farsæll gullsmiður. Jóhannes byrjaði 18 ára gamall í gullsmíði hjá Guðlaugi A. Magnússyni og var hjá honum í sex ár, 1939–1945. Strax eftir sveinspróf árið 1945 flutti Jóhannes til Bandaríkjanna þar sem hann nam málaralist í hinum virta einkaskóla Barnes Foundation í Merion í Pennsylvaníu. Þar var námið heldur óhefðbundið þar sem nemendurnir fengu að þróa list sína hver á sinn hátt undir handleiðslu kennara. Þegar Jóhannes kom heim úr námi árið 1946 gekk hann til liðs við þá sem vildu fara nýjar leiðir í myndlist og var einn af forsprökkum Septembersýninganna árið 1947, en listamennirnir héldu fram þeirri skoðun að listin ætti að lúta sínum eigin lögmálum og skapa nýjan veruleika sem notið yrði á eigin forsendum.  

Sýningin opnar í Safnahúsinu við Hverfisgötu 15, miðvikudaginn 24. apríl og er samstarfsverkefni Listasafns Íslands og Félags íslenskra gullsmiða.

Salur

1

24.4.2024 9.6.2024

Listamenn og hönnuðir

Anna María Sveinbjörnsdóttir

Arna Arnardóttir

Aron Ingvar Árdísarson

Ásgeir Reynisson

Birna Sigfríður Björgvinsdóttir

Dýrfinna Torfadóttir

Emilía Ósk Bjarnadóttir

Erling Jóhannesson

Finnur Jónsson

Gréta María Árnadóttir

Gréta Ósk Björnsdóttir

Guðbjörg Ingvarsdóttir

Guðrún Auður Kristinsdóttir

Gunnhildur Halla Ármannsdóttir

Hadda Rakel Marteinsdóttir

Halla Bogadóttir

Hans Kristján Einarsson

Hansína Jensdóttir

Harpa Kristjánsdóttir

Helga Ósk Einarsdóttir

Hilmar Einarsson

Jóhannes Arnljóts Ottósson

Jóhannes Jóhannesson

Lilja Unnarsdóttir

Lovísa Halldórsdóttir Olesen

Marta Staworowska - elf.ancy

Óttar Gauti Guðmundsson

Páll Sveinsson

Stefán Bogi Stefánsson

Steinunn Björnsdóttir

Unnur Eir Björnsdóttir

Þórdís Björnsdóttir Thoroddsen

Sýningarstjórar

Vigdís Rún Jónsdóttir

Halla Bogadóttir

Textar

Vigdís Rún Jónsdóttir

Forvarsla

Steinunn Harðardóttir

Ljósmyndir

Elísa B. Guðmundsdóttir

Siguður Gunnarsson

Í samvinnu með

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)