Eru málverk á þínu heimili?

13.12.2023

Eru málverk á þínu heimili?

Nathalie Jacqueminet, ein af þremur starfandi forvörðum Listasafns Íslands, lumar á mörgum góðum ráðum þegar kemur að viðhaldi listaverka á heimilum. Samkvæmt Nathalie skipta forvarnir einna mestu máli og jafnframt varar hún okkur við að reyna að hreinsa málverk.

Rétt meðferð skiptir öllu máli þegar málverk eru annars vegar

Þvottalögur er til margra hluta nytsamlegur en hann á aldrei að koma nálægt málverkum, sama hversu vænn hann annars er. Það eru mörg dæmi um það að fólk hafi skemmt málverk með því að strjúka yfir þau með tusku vættri úr sápuvatni segir Nathalie. Málverk eru samansett úr mismunandi efnum, bæði lífrænum efnum og steinefnum sem bregðast á ólíkan hátt við umhverfinu og eru því afar vandmeðfarin.

Málverk þurfa nefnilega rétt viðhald til að endast vel og þar spila forvarnir einnig stóran þátt. Þá skiptir staðsetning verks miklu máli, það er nefnilega ekki alveg sama hvar myndir eru hengdar upp. Til dæmis má ekki hengja málverk fyrir ofan ofn, því hitinn af ofninum leitar upp og getur valdið skemmdum á verki. Þá getur einnig verið varasamt að hengja verk á útveggi húsa. Útveggurinn getur verið kaldari en herbergið er að jafnaði og raki myndast á baklið myndarinnar vegna hitamunar og sprungur myndast í málverkinu. Nathalie varar okkur einnig við að hengja upp málverk í eldhúsum. Með aukinni tíðni jarðskjálfta bendir hún okkar líka á að það sé nauðsynlegt að yfirfara festingar á verkum og nota t.d. skrúfur frekar en nagla til að hengja upp verk.

Rakabreytingar eru þó ekki það eina sem grandar málverkum, því þau eru einnig viðkvæm fyrir ljósi. Ef myndir eru lýstar þarf að nota svokallað kalt ljós, s.s LED. Svo er það blessuð sólin. Málverk má alls ekki hengja á móti suðurglugga því útfjólubláu geislar sólarinnar geta skaðað myndina og hún upplitast og hitnað.

Viðhald mynda og viðgerðir

Nathalie bendir á að hægt sé að gera við ýmsar skemmdir áður en þær verða varanlegar. ,,Segjum sem svo að það sé lítil rifa í gegnum strigann og málverkið. Þá er auðveldara að gera við slíkt ef það er gert strax en sé það látið bíða hefur striginn tilhneigingu til að gliðna og trosna enn frekar og gatið stækkar. Ef brot detta úr málverki þar sem sprungur hafa myndast í verkinu, ætti að halda brotunum til haga í umslagi. Í mörgum tilfellum er hreinlega hægt að líma brotin aftur í myndina án þess að nokkuð beri á.

Meðhöndlun pappírsverka

Gler er iðulega sett yfir teikningar, ljósmyndir og vatnslitamyndir en glerið ver ekki myndina fyrir áhrifum ljóss. Pappírinn gulnar og litirnir upplitast hratt í mikilli birtu. Önnur atriði sem geta haft áhrif á endingu myndverka er pappírinn sem notaður er í innrömmuninni. Nathalie ráðleggur fólki að óska eftir því við innrömmun að notaður sé sýrulaus pappír og karton. Sama gildir svo um ljósmyndir. Ljósmyndir eiga ekki að vera í mikilli birtu frekar en önnur myndverk en þær eru líka mun viðkvæmari fyrir því að upplitast með árunum og dofna. Gott er að láta skanna gamlar ljósmyndir og prýða heldur veggina með prenti og geyma upprunalegar myndir í myrkri.

 Að lokum segir Nathalie að ef fólk er í minnsta vafa um hvernig það eigi að meðhöndla listaverk sín sé best að leita til fagmanna.


Mynd:

Sófamálverkið

2001

Anna Jóa 1969-, Ólöf Oddgeirsdóttir 1953-

lÍ-9186

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17