GAKKTU Í BÆINN!

2.8.2017

Fjölbreytt og spennandi dagskrá Menningarnætur 2017 í Listasafni Íslands og Safni Ásgríms Jónssonar.Opnunartími safna:Listasafn Íslands er opið frá 10 - 23.Listasafn Ásgríms Jónssonar er opið frá 14 - 22. 

12:00 – 23:00Pop-up markaður safnbúðar Listasafns Íslands í samstarfi við Hús og híbýli

Safnbúð Listasafns Íslands hefur á undanförnum árum staðið fyrir útgáfu á fallegum listaverkaplakötum sem fegra veggi heimilisins.

Á Menningarnótt 19. ágúst verða plakötin á sérstökum Pop-up markaði í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg 7. Markaðurinn er haldinn í samstarfi við tímaritið Hús og híbýli sem mun vera með áskriftarsölu á staðnum. Með áskriftinni fylgir veglegur gjafapakki.   

13:00 – 13:40Marteinn Sindri & Daníel Friðrik

Tónlistarmennirnir Marteinn Sindri Jónsson og Daníel Friðrik Böðvarsson flytja tónlist þess fyrrnefnda á Menningarnótt klukkan 13. Tónleikarnir munu fara fram í sýningarrými Listasafns Íslands þar sem Hrafnhildur Arnardóttir / Shoplifter sýnir um þessar mundir innsetninguna Taugafold VII.

Á síðustu misserum hefur Marteinn Sindri verið að hasla sér völl sem lagasmiður og textahöfundur. Hann býr að fjölbreyttri tónlistarreynslu, lærði klassískan píanóleik, hefur leikið djassmúsík og starfað með ýmsum hljómsveitum. Daníel Friðrik Böðvarsson er í fremstu röð íslenskra tónlistarmanna og hefur starfað með fjölmörgum tónlistarmönnum og hljómsveitum hér heima og erlendis.Marteinn Sindri og Daníel Friðrik hafa undanfarið unnið að upptökum á tónlist Marteins Sindra og í vor kom út lagið Spring Comes Late Sometimes, fyrsta smáskífa af væntanlegri EP plötu. Í ágúst kemur út önnur smáskífan; Take Me Down.

15:00 – 16:00Listamannaspjall - Marit Følstad í Vasulka-stofu

Norska listakonan Marit Følstad býður gestum upp á listamannaspjall í Vasulka-stofu. Marit Følstad er sem stendur hér á landi í listamannadvölá vegum Vasulka-stofu og SÍM.Viðburðurinn fer fram á ensku.

Marit Følstad býr og starfar í Osló. Hún vakti mikla athygli undir lok 20. aldar fyrir kynjapólitíska gjörninga og vídeóverk þar sem hún notar sinn eigin líkama sem upphafspunkt. Marit hefur, í nýlegum verkum sínum unnið að því að skapa upplifun í sýningarrýmum, þar sem hún sýnir skúlptúra, vídeóverk, ljósmyndir og innsetningar. Verk hennar hafa verið sýnd víða, meðal annars í Museet for samtidskunst, Nordnorsk Kunstmuseum og í Kunstnernes Hus í Osló.

17:00 – 17:45Leiðsögn um femínískan myndheim Rósku í karllægum heimi myndlistar

Ástríður Magnúsdóttir, meistaranemi í listfræði við Háskóla Íslands spjallar við gesti um femínískan myndheim Rósku í karllægum heimi myndlistar. Verk eftir Rósku má finna á yfirstandandi sýningu Listasafns Íslands; Fjársjóður þjóðar - valin verk úr safneign.

Konan var Rósku alla tíð hugleikin sem viðfangsefni og hún málaði sjálfa sig og konur í málverkum sínum alla tíð. Á fyrri hluta ævi sinnar var Róska kona meðal karla í karllægu samfélagi myndlistar. Hún þorði að láta verkin tala og var afar bersögul og opinská. Hún fór ekki varhluta af karllægri gagnrýni, og lifði sem kona í karllægum heimi og þurfti oft að standa fast á sínu og svara fyrir sig. Þegar leið á öldina breyttist afstaða Rósku og hún fór meðvitað að horfa á sig sem konu meðal kvenna. Hún fór í auknum mæli að tengja list sína við kvennabaráttu og kvenréttindi frekar en almenna mannréttindabaráttu. Myndlist hennar þróaðist samfara því yfir í enn heiðarlegri og berskjaldaðri list þar sem konan og hugmyndir Rósku um konur voru í brennidepli.

Kaffistofan í Listasafni Íslands, Mom's Secret Café verður með Happy Hour frá kl. 17 - 22 og gómsætar Nam-pizzur á tilboði.

20:00 – 20:45Leiðsögn um sýninguna Ógnvekjandi náttúra

Rakel Pétursdóttir deildarstjóri rannsókna og Safns Ásgríms Jónssonar leiðir gesti um sýninguna Ógnvekjandi náttúra í Safni Ásgríms Jónssonar, laugardaginn 19. ágúst á Menningarnótt kl. 20:00. Safnið verður opið frá kl. 18:00 - 22:00.

Í stórbrotnum verkum er sýna menn og dýr á flótta undan náttúruhamförum má skynja innri átök listamannsins sem tengir okkur við líf hans og starf, sælu og þjáningar sem fylgja sköpunarferlinu þar sem slegið er á nýja strengi. Saga fátæks bóndasonar sem verður einn dáðasti listmálari þjóðarinnar er ævintýri líkust. Fjölbreytt efnistök vitna um stöðuga leit listamannsins að tjáningarformi sem hæfði ólíkum viðfangsefnum, allt frá staðbundnum landslagsmyndum til túlkunar á sagnaarfinum, íslenskum þjóðsögum og ævintýrum auk náttúruhamfara. Eldgosamyndirnar svonefndu eru byggðar á frásögnum og eigin reynslu listamannsins þar sem hann gefur okkur hlutdeild í tilveru á mörkum ímyndunar og raunveru sem vitnisburð um að tilveran er fallvölt.

Á sýningunni má sjá olíumálverk, vatnslitamyndir og teikningar er spanna allan feril listamannsins.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17