Listamaður hlýtur styrk úr Styrktarsjóði Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur

21.11.2021

Listamaður hlýtur styrk úr Styrktarsjóði Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur

Úthlutun fór fram í Listasafni Íslands þann 18. nóvember á fæðingardegi Svavars Guðnasonar listmálara en Styrktarsjóður Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur var stofnaður af Ástu, eiginkonu Svavars með það markmið að styrkja unga og efnilega listamenn. Úthlutað er úr sjóðnum á tveggja ára fresti, og að þessu sinni var upphæðin sem úthlutað var ein milljón króna.Styrkinn hlýtur Melanie Ubaldo sem fæddist árið 1992 á Filippseyjum og býr og starfar í Reykjavík. Melanie útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2016 og stundar mastersnám í myndlist við LHÍ.

Melanie hefur haldið nokkrar einkasýningar hér á landi og tekið þátt í hópsýningum bæði hérlendis sem og erlendis. Melanie er einn stofnenda Lucky 3 listahópsins sem samanstendur af íslenskum myndlistarmönnum af flippeyskum uppruna en hópurinn vakti nýverið verðskuldaða athygli með gjörningi sínum PUTI á Sequence hátíðinni. Í verkum sínum varpar Melanie ljósi með einkar beinskeyttum hætti á það umhverfi sem hefur mætt henni í uppvextinum og sem ung kona, verandi Íslendingur af erlendum uppruna.

Verk Melanie eru ekki einungis gagnrýnin heldur eru þau vægðarlaus og opna á enn frekari umræður um misrétti, valdbeitingu og hatursorðræðu í sinni margbreytilegu mynd. Hrálegir efnisbútar saumaðir saman í stór málverk sem hanga úr lofti, með ámáluðum setningum, vísa í hennar eigin reynslu af fordómafullri hegðun annarra í hennar garð. Melanie liggur margt á hjarta í listsköpun sinni og þrátt fyrir oft á tíðum grófa framsetningu í verkum sínum, skín einlægni og jafnvel húmorískt ívaf í gegn.

Stjórn sjóðsins er skipuð þeim Matthíasi Matthíassyni sem er formaður, Guðmundi Andra Thorssyni, Birni Karlssyni, Birni Steinari Pálmasyni og Hörpu Þórsdóttur. Stjórn fól valnefnd að fara yfir þær 46 umsóknir sem bárust. Í valnefnd sátu Harpa Þórsdóttir safnstjóri Listasafns Íslands, Jón Proppé listheimspekingur og Ingólfur Arnarsson myndlistarmaður. Úthlutað var í tólfta skipti úr sjóðnum og hafa nú 20 myndlistarmenn notið þeirrar velgjörðar sem Ásta vildi skapa til að efla myndlistarlífið hér á landi.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)