Birta hefur áður unnið með Hrafnhildi sem sýningarstjóri að tveimur samsýningum, þar sem viðamiklar innsetningar Hrafnhildar hafa leikið veigamikið hlutverk, s.s. í sýningunni Elemental árið 2013 í listamiðstöðinni Havremagasinet í Svíþjóð, þar sem innsetning Hrafnhildar Nervescape III var sýnd, og árið 2015 á sýningunni Tunnel Vision á Momentum - Norræna tvíæringnum í samtímamyndlist, í Noregi, þar sem innsetning Hrafnhildar Nervescape IV var sýnd.
Hrafnhildur Arnardóttir (f. 1969), einnig þekkt sem Shoplifter, er íslenskur myndlistarmaður sem búsett er í New York. Á undanförnum 15 árum hefur hún á umfangsmikinn hátt kannað notkun og táknrænt eðli hárs, og sjónræna og listræna möguleika þessarar líkamlegu afurðar. Í verkum sínum fæst hún við sögu þráhyggju mannsins gagnvart hári og hvernig má upplifa hár sem birtingarmynd sköpunar í nútíma menningu, sem tekst á við hugmyndir á mörkum þráhyggju eða blætis. List hennar hverfist að mestu um skúlptúra, staðbundnar innsetningar og veggverk, sem fjalla jafnan um hégóma, sjálfsmynd, tísku, fegurð og goðsagnir í almannavitundinni. Hrafnhildur sækir áhrif frá dægurmenningu og fjöldaframleiðslu, auk alþýðulistar, naívisma og handverks, sem hefur mikil áhrif á sköpun hennar.
Fínlegur húmor gegnir stóru hlutverki í list Hrafnhildar og endurspeglast vel í notkun hennar á miklu magni marglits gervihárs, hárlenginga sem hún hnýtir, flækir og fléttar með hinu fallega og gróteska, og teflir saman upplifun á fjöldaframleiddum munum andspænis þeim einstöku. Hún hefur unnið með listamönnum frá öllum heimshornum, þar á meðal íslensku tónlistarkonunni Björk en fyrir umslag plötu hennar Medúlla árið 2004 skapaði Hrafnhildur „hár-hjálm“. Árið 2008 starfaði Hrafnhildur með listahópnum a.v.a.f að verki fyrir framhlið MoMA; Samtímalistasafnsins í New York. Meðal nýjustu verka hennar er röð viðamikilla innsetninga, sem ber heitið Nervescape og hún hefur unnið sérstaklega fyrir stórar stofnanir, s.s. Nervescape IV á Norræna tvíæringnum í samtímamyndlist – Momentum 8, í Moss, Noregi árið 2015, Nervescape V , í Samtímalistasafni Queensland í Brisbane, Ástralíu árið 2016 og Nervescape VI í Fílharmóníunni í Los Angeles, Bandaríkjunum fyrr á árinu árið 2017.
Aðgangur ókeypis fyrir meðlimi Selmuklúbbsins.