Ný heimasíða Listasafns Íslands

1.6.2022

Listasafn Íslands, stofnað 1884, er staðsett á þremur stöðum; við Fríkirkjuveg, í Safnahúsinu við Hverfisgötu og á fyrrum heimili listamannsins Ásgríms Jónssonar í grónu íbúðahverfi við Bergstaðastræti. Listasafnið safnar stöðugt íslenskri myndlist og spannar listaverkasafnið nú yfir 14.000 verk sem hefur að geyma einstakt úrval lykilverka íslenskrar myndlistarsögu frá aldamótunum 1900 til dagsins í dag.

Eitt af meginhlutverkum safnsins er að miðla þekkingu um listaverkasafnið og starfsemi Listasafns Íslands til samfélagsins. Til að uppfylla það hlutverk enn betur leitaði safnið til Kolibri til að koma að nýrri stafrænni miðju safnsins.

Fyrri vefur var orðinn gamall og erfiður viðureignar. Listaverkasafnið var ekki aðgengilegt og myndir af listaverkum birtust ekki miðlægt. Stefnan var tekin að gera nýja vefinn aðgengilegri og að heimasíðan rammi betur inn fjölbreytta starfsemi Listasafns Íslands. 

Með nýja vefnum var hulunni svipt af safninu og fólk boðið velkomið. Á honum er húsin þrjú sýnd, hvar gengið er inn í þau og hvaða viðburði, klúbbastarf og sýningar er þar að finna. Sérstök áhersla er lögð á að sýna á áberandi hátt að starfsemi safnsins nær langt umfram sýningahald - þar á sér stað öflug og skipulögð söfnun myndlistar, faglegt rannsóknarstarf og metnaðarfull fræðslustarfsemi.

Kolibri teymið tók þátt í stefnumótunarvinnunni frá byrjun, en að verkefninu komu auk starfsmanna Listasafnsins; Greipur Gíslason ráðgjafi, Bergur Ebbi Benediktson rithöfundur og Einar Geir Ingvarsson listrænn stjórnandi og hönnuður ásýndar Listasafnsins. Auk þess bauð safnið ýmsum hagaðilum í þessa vinnu.

Eftir kjarnmikinn stefnumótunardag voru vinnustofur haldnar af Kolibri næstu vikurnar ásamt því að gerðar voru markaðsrannsóknir, tölfræði skoðuð, notendur skilgreindir og samkeppnismarkaður kortlagður. Vefstefna var lögð fram út frá gögnum og stefnumótuninni og prótótýpur hannaðar. Stafræn ásýnd var síðan útfærð og byggð á vörumerkjastaðal og myndband framleitt í samstarfi við Skjáskot.

Mesta byltingin og tæknilega mesta áskorun vefsins var leitarvélin. Notast var við Algolia leitarvélarlausnina og skráir hún öll verk Listasafnsins eins og þau birtast á Sarpur.is, menningarsögulegu gagnasafni, sem Listasafnið á hlut að. Þetta leyfir leitarvél Listasafnsins að splæsa sínum eigin gögnum og ljósmyndum við skráningar Sarps, eykur hraðann margfalt, og leyfir snjallari leit.

Útkoman varð nýr vefur sem færir Listasafnið nær nútímanum og til almennings. Listasafn Íslands er safnið okkar allra. Vefurinn allur og ásýndin var einfölduð með því að samstilla allan karakter, ávarp og fleira í þeim dúr. Framsetning á grundvallarupplýsingum var stórbætt, eins og um opnunartíma, staðsetningu safnhúsanna og starfsemina. Sýningum og listaverkum er nú gert hátt til höfuðs með vönduðum sýningarsíðum, öflugri leit og betri og fallegri síðu.

“Nýi vefurinn okkar skapar algjöra umbreytingu í starfsemi Listasafns Íslands. Við fengum Kolibri með okkur á stefnumótunardag með öllu starfsfólki safnsins og buðum einnig fulltrúum hagaðila okkar og þannig gat Kolibri kynnst kjarna starfseminnar og markmiðum okkar til næstu ára. Nýi vefurinn okkar er nú stafræn miðja safnsins og safneign Listasafns Íslands, sá grunnur sem starfsemin hverfist um, er gerð aðgengileg með þeirri þjónustu hugsun sem við höfum innleitt hjá okkur. Kolibri með sínu öfluga starfsfólki fann endalausar lausnir og setti fram áræðna sýn með okkur sem hvetur okkur áfram. Það verður spennandi að halda áfram þessari vegferð með Kolibri”.

Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands

„Við hjá Kolibri erum afar þakklát fyrir að koma að jafn mikilvægu verkefni. Starfsfólk Listasafnsins voru sveigjanleg, opin og framúrstefnuleg í samvinnu og fengu okkur snemma inn í stefnumótunarvinnu sem skilaði sér í djúpum skilningi á hlutverki, framtíðarsýn og áskorunum sem safnið er að kljást við. Nú er nútímalegur grunnur kominn upp; hönnunarkerfi og tækni sem mun leyfa greiningar og ítranir í samræmi við skýra stefnu og markmið. Vegferðin er rétt að hefjast“.

Steinar Ingi Farestveit, listrænn stjórnandi Kolibri

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17