Þjóðminjasafn Íslands afhendir Safnahúsið til Listasafnsins

3.3.2021

Þjóðminjasafn Íslands afhendir Safnahúsið til Listasafnsins

Að fenginni tillögu Þjóðminjasafns Íslands og Listasafns Íslands til mennta- og menningarmálaráðuneytisins hefur ráðherra tekið ákvörðun um að verkefni Safnahússins við Hverfisgötu færist til Listasafnsins. Afhenti Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, Hörpu Þórsdóttur safnstjóra Listasafns Íslands lykla að Safnahúsinu þann 1. mars síðastliðinn.

Í Safnahúsinu stendur nú yfir sýningin Sjónarhorn, áhrifamikil sýning um sjónrænan menningararf þjóðarinnar sem var opnuð 18. apríl 2015. Sýningin hefur að geyma margvíslega gripi úr safneignum Þjóðminjasafnsins, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Þjóðskjalasafns Íslands, Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þjóðminjasafnið hefur veitt Safnahúsinu forstöðu frá 2013 og við yfirfærslu verkefna Safnahússins nú, verður sýningin Sjónarhorn opin gestum til Sumardagsins fyrsta, en Listasafn Íslands undirbýr fyrsta fasa grunnsýningar safnsins í húsinu sem stefnt er að verði opnuð á menningarnótt, 21. ágúst næstkomandi.

Markmiðið er að í Safnahúsinu verði vettvangur grunnsýningar á myndlistararfinum með sérstakri áherslu á vísinda- og fræðslustarf fyrir börn en Listasafn Íslands hefur lagt ríka áherslu á barnastarf safnsins á undanförnum árum, meðal annars með Krakkaklúbbnum Krumma sem hefur verið starfræktur frá því á menningarnótt árið 2018. Er þessi ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra til marks um mikilvæga hvatningu til að efla enn frekar þá starfsemi sem lýtur að menntun og fræðslu ungs fólks á menningararfi okkar.  

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17