Fjallað verður um þjóðsagnamyndir Ásgríms Jónssonar um aldamótin 1900 og þá sérstaklega um tímamótasýningu hans árið 1905 í Reykjavík þar sem hann sýndi fyrstur íslenskra myndlistarmanna málverk sem sóttu myndefni sín í þjóðsögurnar.
Þjóðsagnamyndir Ásgríms eru skoðaðar í samhengi við menningarlegan bakgrunn hans og verk myndhöggvarans og góðvinar Ásgríms, Einars Jónssonar sett í samhengi við verk Ásgríms og tengsl þeirra við þjóðernisrómantík og symbólisma.Einnig verður fjallað um söfnun og útgáfu þjóðsagna á Íslandi og það hlutverk sem sú útgáfa hafði sem bakhjarl hinnar þjóðernisrómantísku hreyfingar í lok 19. aldar.
Fjallað verður um nokkrar þjóðsagnamyndir Ásgríms sem hann vann í byrjun 20. aldar og þá sterku tjáningu tilfinninga sem koma fram í þessum verkum hans. Að lokum eru landslags- og þjóðsagnamyndir Ásgríms settar í samhengi við þá þjóðernislegu orðræðu sem varð til í lok 19. aldar. Verk Ásgríms eru þá einnig sett í samhengi við hugmyndir um þjóðerni og hlutverk myndlistarinnar sem voru nátengdar í upphafi 20. aldar.
Fyrirlesari er Guðrún Lilja Kvaran, sem hlaut B.A gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands árið 2013 og hefur framhaldsmenntun á sviði upplýsingafræði, með áherslu á upplýsinga- og skjalastjórn og rafrænum samskiptum hjá skipulagsheildum. Hún starfar sem skjalastjóri Vísindasiðanefndar.
Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir meðlimi Selmuklúbbsins.