Kennaraklúbbur Listasafns Íslands

Kennaraklúbbur Listasafns Íslands hefur göngu sína

Kennarar allra skólastiga og allra skóla fá bráðlega tækifæri til að hittast reglulega á Listasafni Íslands og kanna hvernig hægt er að nýta safnið og fjársjóði þess sem efnivið í kennslu og safnhúsin þrjú sem námsvettvang.  Kennarar gegna lykilstöðu í menntun barna, ungmenna og annarra og þess vegna finnst okkur mikilvægt að setja af stað skemmtilegan og fræðandi klúbb þar sem fræðsludeild safnsins getur verið í virku samtali við kennara. Við stefnum á að kynna útgáfur og halda viðburði sem henta kennurum allra námsgreina og um leið opna fyrir virka hlustun á þörfum skólakerfisins innan frá. Við hlökkum mikið til að bjóða kennara velkomna í klúbbinn. Öll sem kenna, hafa kennt eða hafa áhuga á kennslumálum eru velkomin í klúbbinn!

Hægt er að skrá sig í klúbbinn með nafni og netfangi á mennt@listasafn.is

Dagskrá haustannar 2024

Örnámskeið í undirbúningsviku kennara
Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi


Dagsetningar:

13. ágúst kl. 10–12, fjarnámskeið á netinu
13. ágúst kl. 13–15, námskeið í Safnahúsinu við Hverfisgötu
14. ágúst kl. 10–12, námskeið í Safnahúsinu við Hverfisgötu
14. ágúst kl. 13–15, fjarnámskeið á netinu

Sjónarafl miðar með markvissum hætti að því að tengja kennslu í myndlæsi og listasögu við skólakerfið og auka þekkingu nemenda á menningarsögu og menningararfi þjóðarinnar. Þjálfun í myndlæsi eykur einnig hæfni í tjáningu, virkri hlustun, hugtakaskilningi og gagnrýnni hugsun. Á námskeiðinu fá kennarar kynningu og þjálfun í aðferðum myndlæsis þar sem unnið er markvisst með umræðu- og spurnaraðferð.
Myndlæsisþjálfunin fer fram með því að styðjast við valin verk úr safneign Listasafns Íslands og er fræðsluefnið sjálft unnið sérstaklega með kennara í huga.

Námskeiðsgjald er 4.700 kr. og innifalin í því er kennslubókin Sjónarafl. Greitt er á staðnum.

Athugið að takmarkaður fjöldi kemst á námskeiðið og skráning er því nauðsynleg í gegnum netfangið mennt@listasafn.is


19. ágúst kl. 14–16
Haustfundur í Safnahúsinu við Hverfisgötu

Kynning á starfinu framundan, nýjum fræðsluleiðum og dagskrá Kennaraklúbbsins.
Léttar veigar og góð stemning! 

26. september kl. 15–17
Staðsetning: Safnahúsið við Hverfisgötu
Ísabrot – jöklar í íslenskri myndlist, útgáfuhóf og uppskera.
Listasafn Íslands hlaut hæsta styrkinn úr Barnamenningarsjóði fyrir verkefnið Ísabrot þar sem unnið var með listamönnum að þverfaglegum skapandi smiðjum þar sem valin listaverk sem tengjast jöklum voru einnig tekin fyrir með aðferðum Sjónarafls.
Afrakstur verkefnisins kemur nú út í veglegri bókfyrir kennara þar sem listasmiðjunum er miðlað ásamt fróðleik um listaverkin sjálf.

28. nóvember kl. 15–17
Jólaglögg
Staðsetning: Fríkirkjuvegur 7
Skemmtileg jólastemning í nýju fræðslurými safnsins á Fríkirkjuvegi 7.
Nýir möguleikar kynntir til sögunnar í safnfræðslu.

Ókeypis er á alla viðburði Kennaraklúbbsins.


Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17