Kennaraklúbbur Listasafns Íslands

Kennaraklúbbur Listasafns Íslands hefur göngu sína

Kennarar allra skólastiga og allra skóla fá bráðlega tækifæri til að hittast reglulega á Listasafni Íslands og kanna hvernig hægt er að nýta safnið og fjársjóði þess sem efnivið í kennslu og safnhúsin þrjú sem námsvettvang.  Kennarar gegna lykilstöðu í menntun barna, ungmenna og annarra og þess vegna finnst okkur mikilvægt að setja af stað skemmtilegan og fræðandi klúbb þar sem fræðsludeild safnsins getur verið í virku samtali við kennara. Við stefnum á að kynna útgáfur og halda viðburði sem henta kennurum allra námsgreina og um leið opna fyrir virka hlustun á þörfum skólakerfisins innan frá. Við hlökkum mikið til að bjóða kennara velkomna í klúbbinn. Öll sem kenna, hafa kennt eða hafa áhuga á kennslumálum eru velkomin í klúbbinn!

Hægt er að skrá sig í klúbbinn með nafni og netfangi á mennt@listasafn.is

Dagskrá vorannar 2024

Dags: Fimmtudagur 8.febrúar 2024
Tími: 15.00 - 17.00
Staður: Safnahúsið við Hverfisgötu
Opinn viðburður

AÐ HORFA Á LISTAVERK: MÁLÞING UM MYNDLÆSI
Í kjölfar útgáfu bókar í kennsluefninu Sjónarafl - þjálfun í myndlæsi efnir Listasafn Íslands til málþings um myndlæsi fimmtudaginn 8. febrúar næstkomandi kl. 15 - 17. Við hvetjum ykkur til að mæta snemma því mikill áhugi hefur skapast vegna þessa viðburðar og ekki þarf að skrá sig fyrirfram. 

Dagskrá málþingsins:

1.Ávarp
Ingibjörg Jóhannsdóttir, safnstjóri
2. Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi
Rannsóknarvinna, þróunarverkefni og útgáfa kennsluefnis.
Ragnheiður Vignisdóttir, fræðslustjóri og Marta María Jónsdóttir, myndlistarmaður og safnkennari
3. Hvernig ber að horfa á listaverk 
Françoise Barbe-Gall, listfræðingur, bókahöfundur og stofnandi CO.RE.TA
4. Merkingarbært nám í nútímasamfélagi
Ýr Káradóttir, sérfræðingur í kennslufræðum með áherslu á sjónræna ígrundun
5. Listaverk hristir upp í hugarheimi: „Af hverju að setja sig í áhættu fyrir frið?“
Ingimar Ólafsson Waage, myndlistarmaður og lektor við listkennsludeild Listaháskóla Íslands
6.Umræður

Fundarstjóri: Dorothée M. Kirch, markaðs- og þróunarstjóri

Dags: 21.mars 2024
Tími: 15-16.30
Staður: Safnahúsið við Hverfisgötu

Lokaður viðburður fyrir félaga

LEIÐSÖGN OG UMRÆÐUR UM SÝNINGUNA VIÐNÁM - SAMSPIL MYNDLISTAR OG VÍSINDA
Sérfræðingur í fræðsludeild safnsins gengur með félögum í kennaraklúbbnum í gegnum sýninguna Viðnám í Safnahúsinu. Sýningin er fastasýning á listaverkum úr safneign og er því sérstaklega góður kostur til að nýta sem námsvettvang til lengri tíma. Sýningin er á 4 hæðum, þar sem á hverri hæð er ákveðið þema Lögmál á 1. hæð, Lögur á 2. hæð, Láð á 3. hæð og Loft á 4. hæð. Sú uppsetning gerir þematengda kennslu einstaklega aðgengilega í rýmum sýningarinnar. Hér fyrir neðan er linkur á frekari upplýsingar um sýninguna. Léttar kaffiveitingar í lok leiðsagnar og spjall um sýninguna almennt og möguleika kennara til að nota hana sem námsvettvang

Skráning er æskileg í gegnum mennt@listasafn.is, en einnig er hægt að mæta án skráningar beint á viðburðinn, þar sem hann er ekki opinn almenningi. 

Dags: 16.maí 2024
Tími 15.00 - 16.30
Staður: Safnahúsið við Hverfisgötu
Lokaður viðburður fyrir félaga

TRÖLL ÁLFAR OG DRAUGAR: Vöfflukaffi og kynning á fræðslurýmum og þjóðsöguleiðsögnum í Safnahúsi og nýrri bók með þjóðsagnaverkum Ásgríms Jónssonar
Þjóðsögur - tröll, álfar og draugar - eru skemmtilegur menningararfur sem oft er gaman að vinna með í skólastarfi. Þjóðsagnamyndir Ásgríms Jónssonar mótuðu myndrænar hugmyndir um ásýnd trölla, álfa og drauga á 20.öldinni fram til okkar daga. Skemmtileg staðreynd er að einar af fyrstu myndskreytingum í lestrarbókum barna voru einmitt tröllamyndir Ásgríms sem komu út árið 1911. Tvö fræðslurými í Safnahúsi eru tileinkuð þjóðsagnamyndum Ásgríms og því gaman að geta kynnt kennurum þá möguleika sem þessi rými veita í leiðsögnum til skóla á mismunandi skólastigum.

Skráning er æskileg í gegnum mennt@listasafn.is, en einnig er hægt að mæta án skráningar beint á viðburðinn, þar sem hann er ekki opinn almenningi.

ÖRNÁMSKEIÐ FYRIR KENNARA Í AÐFERÐUM
MYNDLÆSISÞJÁLFUNAR SJÓNARAFLS (stað- og fjarnámskeið)

Við bjóðum kennurum í kennaraklúbbnum forgang í 2 klst. örnámskeið hjá sérfræðingum fræðsludeildar í aðferðum Sjónarafls kennsluefnisins við þjálfun myndlæsis.  Á hverju  námskeiði verður fjöldi takmarkaður við 6- 8 þátttakendur þannig að allir geti fengið tækifæri til að beyta aðferðinni á námskeiðinu. Kostnaði verður haldið í lágmarki og handbókin Sjónarafl fylgir í  námskeiðsgjaldinu. Tímasetningar námskeiða og upplýsingar um verð verða send í sérstökum pósti til félagsmanna. 

ATH. að fyrirhugað er að vera einnig með þessi námskeið sem fjarnámskeið fyrir kennara gegnum Teams. Að auki verður á næsta skólaári unnið sérstaklega með aukna fjarkennslumöguleika almennt fyrir fræðslu til skóla sem ekki eiga heimangengt á safnið.

Vinsamlegast hafið samband í gegnum netfangið mennt@listasafn.is ef þið hafið áhuga á að skrá ykkur á forgangslista á slík námskeið - með nafni, netfangi og síma. 

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)