Börn í myndlæsisþjálfun, sitjandi á gólfi fyrir framan listaverk.

Sjónarafl — þjálfun í myndlæsi

Listasafn Íslands gefur út nýtt rafrænt fræðsluefni þar sem lögð er áhersla á þjálfun í myndlæsi. Fræðsluefnið er hluti af stærra verkefni sem ber nafnið Sjónarafl, en fræðsludeild safnsins hefur unnið að verkefninu undanfarin ár og er þessi útgáfa afraksturinn af þeirri vinnu.

Sjónarafl  miðar með markvissum hætti að því að tengja kennslu í myndlæsi og listasögu við skólakerfið og auka þekkingu nemenda á menningarsögu og menningararfi þjóðarinnar. Þjálfun í myndlæsi eykur einnig hæfni í tjáningu, virkri hlustun, hugtakaskilningi og gagnrýnni hugsun.

Fræðsluverkefnið Sjónarafl  felur í sér valdeflingu þátttakenda til að skilja og takast á við myndrænar upplýsingar og heiminn eins og hann kemur þeim fyrir sjónir. Í myndlæsi er unnið markvisst með umræðu- og spurnaraðferð kennslufræðinnar þar sem þátttakendum er gefið gott rúm til að tjá sig og lýsa eða túlka það sem þeir sjá. Með tímanum fá þátttakendur í verkefninu dýrmæta lykla sem veita þeim hæfni til að skoða og njóta myndlistar í hvaða formi sem er.  Þá eru einungis tvö listaverk tekin fyrir í hverri safnaheimsókn eða kennslustund, en tekinn er allt að hálftími til að greina, ræða um og rýna í hvert verk með virkri þátttöku nemenda.

Myndlæsisþjálfunin fer fram með því að styðjast við valin verk úr safneign Listasafns Íslands og er fræðsluefnið sjálft unnið sérstaklega með kennara í huga – þannig að hvaða kennari sem er geti tekið efnið og notað í kennslu eða komið í heimsókn á safnið sem hluta af náminu. Efnið er unnið út frá alþjóðlegum rannsóknum og kennsluaðferðum í myndlæsi. Í Safnahúsinu við Hverfisgötu stendur nú yfir sýningin Viðnám þar sem myndlist og vísindi mætast og þar má sjá lykilverk úr safneign Listasafns Íslands sem tekin eru fyrir í fræðsluefni Sjónarafls.

Í Listasafni Íslands starfa sérfræðingar í íslenskri myndlist. Hluti af gæðastarfi safnsins í fræðslumálum var að byrja verkefnið í þróunarfasa þar sem hægt var að meta praktísk atriði ásamt  raunverulegum árangri. Síðasta ár var Listasafnið í samstarfi við kennara og nemendur í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík þar sem verkefnið var á þróunarstigi. Með því samstarfi gátu sérfræðingar í fræðsluteymi safnsins lagt mat á árangur nemenda sem tóku miklum framförum á tímabilinu og geta þeirra til þess að lesa í myndir og beita aðferðum myndlæsis varð áberandi góð, sjálfstraust nemenda í tjáningu jókst og færni þeirra í rökhugsun að sama skapi.

Listasafn Íslands sinnir lögbundnu menntunarhlutverki og með Sjónarafli og framsetningu þess er safnið að þróa nýja leið til þess að styðja við kennslu í mynd- og menningarlæsi með faglegum hætti í beinum tengslum við listaverkaeign þjóðarinnar, aðalnámskrár, Barnasáttmálann og myndlistar- og menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030. Er það von okkar að verkefnið muni stuðla að auknum sýnileika myndlistar og að hún fái meira vægi við menntun komandi kynslóða.

Nánari upplýsingar um Sjónarafl veitir fræðsluteymi Listasafns Íslands: Ragnheiður Vignisdóttir, Marta María Jónsdóttir og Ingibjörg Hannesdóttir.
mennt@listasafn.is

Ljósmyndun verka: Sigurður Gunnarsson

Því lengur sem að við horfum á listaverk, því meira sjáum við!

Smelltu á hnappana hér fyrir neðan til að nálgast kennsluefni Sjónarafls

Skráðu þig á póstlista til að fá fréttir af Sjónarafli

Sjónarafl

Hér má sjá innslag þar sem KrakkaRúv fjallaði um Sjónarafl í Listasafni Íslands

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17