Ísabrot – jöklar í íslenskri myndlist
Sýningin Viðnám í Safnahúsinu er grunnur að verkefninu Ísabrot - jöklar í íslenskri myndlist.
Listaverkin á sýningunni veita tækifæri til að velta vöngum yfir tilverunni, náttúrunni og öðru fólki. Með verkefninu Ísabrot – jöklar í íslenskri náttúru verður sjónum beint að þeim áskorunum sem að við stöndum frammi fyrir vegna bráðnandi jökla á landinu og þau listaverk sem að tengjast jöklum á sýningunni veita innblástur að listrænni sköpun. Myndlist getur vakið áleitnar spurningar og listræn nálgun getur breytt því hvernig fólk lítur á heiminn. Þá getur myndlist ýtt undir vilja til að taka þátt í að umbreyta samfélaginu í átt að sjálfbærri framtíð. Í verkefninu verða valin listaverk sem tengjast jöklum tekin fyrir og aðferðum myndlæsis beitt við ígrundun og samtal. Með listrænni tjáningu, sköpun og samtali verður til skilningur og þekking sem að situr eftir og nýtist nemendum til framtíðar.
10 listamenn stýra ólíkum smiðjum á skólaárinu 2023 – 2024 sem að allar hverfast um jökla, mismunandi nálganir á þeim og úrvinnslu sem að síðan safnast saman í þekkingarbanka, er miðlað verður áfram að verkefni loknu til kennara um land allt. Í smiðjunum verður meðal annars unnið með: himingeiminn og rannsóknir á bráðnun jökla með gögnum frá gervitunglum, jurtir sem að koma undan jöklum, form og áferð jökla, jökla sem vettvang görninga, minningar um jökla sem eru ekki lengur til, hljóðheima jökla, litaheim jökla, kortlagningu og hreyfingu þeirra.
Þeir þátttökuskólar sem ekki sjá sér fært að heimsækja Safnahúsið fá listasmiðjurnar til sín í skólastofuna með rafrænum hætti.
Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði Íslands.
Áhugasamir kennarar eru hvattir til þess að senda póst á netfangið mennt@listasafn.is