Koma jól?

Rán Flygenring

30.11.2023 — 7.1.2024

Safnahúsið

Rán Flygenring er margverðlaunaður mynd- og rithöfundur. Í október síðastliðin hlotnuðust henni hin virtu Barna- og unglingabókaverðlaun Norðurlandaráðs. Í tilefni af því sýnir Listasafn Íslands nokkur verka hennar í sýningarrými sem nýlega var tekið í notkun í á jarðhæð Safnahúsins við Hverfisgötu.

Á sýningunni má sjá dúkristur sem Rán gerði í samvinnu við rithöfundinn og listamanninn Hallgrím Helgason fyrir bókina Koma Jól?.

 


Jólaljóðabók eftir Hallgrím Helgason og Rán Flygenring kveðst á við fræga bók Jóhannesar úr Kötlum, Jólin koma. Hér er að finna nýjustu fréttir af Grýlu og Jólakettinum og þá stíga hinar jökulhressu Grýludætur, systur jólasveinanna, fram úr þúsund ára löngum skugga bræðra sinna og arka til byggða, hver með sínu lagi og hrekkjabrögð í farteskinu: Bjalla, Grýlurós, Litla ljós, Fantasía, Stelpustoð, Töskubuska, Bokka, Tertuglöð, Fiturönd, Augasteinastara, Áttavillt, Svangatöng og Kortasníkja.

Kvæðin heita Koma jól?, Skógjafatíð, Jólasystur, Grýlukvæði, Grýluvísa, Jólakötturinn og Íslandsjól.

Myndir bókarinnar eru ristar í dúk.


Rán Flygenring haslaði sér fyrst völl sem hirðteiknari Reykjavíkurborgar árið 2011 og hefur síðan þá teiknað allt á milli himins og jarðar; frímerki og fugla, hvalamyndskýrslur, jafnréttismál, brúðkaup og aðrar kaupstefnur, eldgos og konuforseta.

Auk hin virtu barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs hefur Rán hlotið Þýsk-frönsku barnabókaverðlaunin, Þýsku barnabókaverðlaunin, Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar, Bóksalaverðlaunin, FÍT verðlaun auk fjölmargra tilnefninga..

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17