Fræðslustarfsemi


FULLORÐINSFRÆÐSLA

Listasafn Íslands skipuleggur fjölbreytta viðburða- og fræðsludagskrá í tengslum við allar sýningar í safninu svo sem málþing, samtal við listamenn, sýningarstjóra og fræðimenn, fyrirlestra og almennar leiðsagnir. Á dagskrá eru jafnframt fræðslufundir og námskeið um málefni myndlistar og afmarkaða þætti listasögunnar. Viðburðirnir skapa tækifæri fyrir gestina til að nálgast myndlistina á margvíslegan hátt; fræðilegum forsendum eða með óformlegum hætti, bæði í safninu sjálfu og utan þess. Einnig býður safnið upp á leiðsögn og safnaheimsóknir fyrir almenna hópa. Sjá nánar hér


SKÓLAHÓPAR

Listasafn Íslands, ásamt Listasafni Sigurjóns Ólafssonar og Safni Ásgríms Jónssonar býður upp á skemmtilega möguleika í safnafræðslu með mismunandi efnisnálgun fyrir nemendur af öllum skólastigum, skólunum að kostnaðarlausu. Tekið er mið af aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla þar sem það á við. Tekið er á móti nemendum grunn- og framhaldsskóla, auk háskóla og börnum á forskólaaldri, virka daga eftir samkomulagi. Bóka má leiðsögn hér.

Söfnin þrjú fagna nemendahópum á öllum aldri sem vilja koma í söfnin með eða án leiðsagnar safnakennara. Mælt er með því að hópar sem komi á eigin vegum láti vita af komu sinni. 

Fróðleikur & 25 verkefni FYRIR GRUNNSKÓLAKENNARA:

 

Farvegur myndlistar til framtíðar er aðgengilegur fræðslupakki með verkefnum sem byggir á listaverkum Sigurjóns Ólafssonar. Fræðslupakkann má nýta sjálfstætt utan safnsins eða sem leiðarljós meðan á heimsókn stendur. Verkefnið er hannað sem PDF-skjal til útprentunar og má hala niður hér.

Hugmyndasmiður verkefnisins er Alma Dís Kristinsdóttir.


Fyrir fjölskyldur

Safnið hvetur fjölskyldur til að koma í heimsókn og spá og spekúlera á eigin vegum. Við bjóðum einnig reglulega upp á fjölbreytta dagskrá þar sem lögð er áhersla á samveru fjölskyldunnar á skapandi hátt, hvort sem það er með lifandi leiðsögn eða sérsniðnum vinnusmiðjum. Allir viðburðir eru auglýstir sérstaklega í tengslum við sýningar.

Hugskot er fræðslu- og upplifunarrými á neðstu hæð Listasafns Íslands og er ætlað gestum safnsins, ungum sem öldnum. Hugskot er staður þar sem hægt er að doka við og eiga samverustund í beinum tengslum við myndlist. Á staðnum eru skissuarkir og blýantar ásamt verkefnum sem leiða fjölskyldur í leiðangur um safnið og tengjast þeim sýningum sem eru uppi hverju sinni. Einnig verður boðið upp á viðburði og vinnustofur fyrir börn og ungt fólk í fræðsludagskrá safnsins sem auglýst er sérstaklega á heimasíðu þess.


FRÆÐSLUMIÐSTÖÐ Á HEIMILDA- OG BÓKASAFNI

Aðgangur að rafrænum gagnagrunni með ljósmyndum og heimildum um öll verk í eigu safnsins eftir íslenska listamenn.