Gæðastundir

 Gæðastundir í Listasafni Íslands. 

Dagskráin er ætluð eldri borgurum og er samsett af sérsniðnum leiðsögnum og spjalli við sérfræðinga safnsins um myndlist, yfirstandandi sýningar og starfsemi Listasafns Íslands. 

Viðburðirnir skapa tækifæri fyrir gesti til að nálgast myndlistina og menningararf þjóðarinnar á margvíslegan hátt. Ávallt er boðið upp á kaffi og meðlæti á gæðastundum í Listasafni Íslands. Bakkelsið er í boði Brauðs og Co sem styrkir verkefnið.

Hámarksfjöldi gesta á hverjum viðburði er 25 manns.
Hægt er að skrá sig á staka viðburði með því að senda póst á netfangið mennt@listasafn.is eða í síma 515 9600.

Aðgangseyrir á safnið gildir. 

Tengiliður dagskrár: Ragnheiður Vignisdóttir

ragnheidur(at)listasafn.is

14. júlí kl. 14

Halló, geimur

Leiðsögn sýningarstjóra um sýninguna Halló, geimur. Fjarlægar víðáttur í óendanlegum alheiminum hafa frá upphafi verið manninum hugleiknar og í aldanna rás hafa listamenn túlkað og tekist á við hugmyndir sínar um geiminn og miðlað þeim með fjölbreyttum hætti.

11. ágúst kl. 14

Sumarnótt / Ragnar Kjartansson

Leiðsögn um vídeóinnsetninguna Sumarnótt (Death Is Elsewhere) eftir Ragnar Kjartansson sem tekið var upp á íslenskri sumarnótt, þegar aldrei dimmir.

Þetta sjö rása verk er ein þeirra stóru vídeóinnsetninga sem hafa verið áberandi í listsköpun Ragnars síðustu ár þar sem endurtekningar, tími og rúm leika veigamikið hlutverk.

8. september kl. 14

Varðveisla listaverka í heimahúsum

Listaverk prýða víða heimili Íslendinga. Málverk, teikningar, textílverk, höggmyndir og silfurgripir eru viðkvæmir gripir sem þarfnast umönnunar og alúðar. Sérfræðingur Listasafns Íslands mun fjalla um varðveislu listaverka í heimahúsum og veita góð ráð varðandi umhirðu þeirra.

13. október kl. 14

Muggur

Leiðsögn um sýninguna Muggur – Guðmundur Thorsteinsson. Á sýningunni verður skyggnst inn í sérstæðan myndheim Muggs sem spannar víð svið: ævintýraheima þar sem fíngerðir prinsar og prinsessur dvelja í fögrum höllum, tröllaheima myrkurs og ógnar, landslag og sveitasælu á Íslandi, ferðaminningar frá framandi stöðum, náðarheim trúarinnar þar sem Kristur læknar sjúka, en einnig skoplegar og skondnar teikningar og þjóðsögur.

10. nóvember kl. 14

Verkferill listamanns

Ferðalag og fróðleikur um ævi og list Guðmundu Andrésdóttur (1922-2002).
Skoðuð verða verk sem eru hluti af sýningunni Halló, geimur ásamt öðrum verkum úr safneign Listasafns Íslands.

8. desember kl. 14

Steina / Of the North

Leiðsögn um vídeóinnsetninguna Of the North eftir Steinu (Steinunni Briem Bjarnadóttur-Vasulka, f. 1940). Innsetningin er hluti af sýningunni Halló, geimur.
Verkið Of the North frá árinu 2001 er unnið út frá safni Steinu af vídeóupptökum, mestmegnis af náttúru Íslands. Verkið vísar jafnframt út í geiminn þar sem sjá má hnattlaga kúlurnar snúast um ímyndaðan ás í seiðandi rytma með öllum þeim hljóðum sem fylgja.