SKÓLAHÓPAR


Heimsókn í Listasafn Íslands

Nemendum á öllum skólastigum er boðið í heimsókn í Listasafn Íslands. Í hverri heimsókn eru sýningar safnsins skoðaðar og nemendur hvattir til að taka þátt í umræðum um myndlist, listamenn, efnisnotkun listamanna og hlutverk Listasafns Íslands.

Markmið heimsóknar

 • Að nemendur kynnist Listasafni Íslands.
 • Að nemendur kynnist hugtökum á borð við: Myndlist, þjóðlistasafn, sýning og safneign.
 • Að nemendur kynnist fjölbreytileika myndlistar í breytilegu formi eftir þeim sýningum sem eru í safninu hverju sinni.

Heimsóknin

Tekið er á móti hópum í anddyri Listasafns Íslands, Fríkirkjuvegi 7. Safnkennari býður nemendur velkomna og fer yfir sögu og hlutverk Listasafns Íslands í stuttu máli. Eftir kynningu á safninu eru sýningar safnsins skoðaðar. Safnkennari hvetur nemendur til að spyrja spurninga og velta ýmsum hugtökum fyrir sér á meðan verkin eru skoðuð. Farið er yfir myndbyggingu, verkferla, listamenn og mismunandi tímabil í listasögunni.

Við tökum vel á móti nemendum á öllum aldri, með eða án leiðsagnar. Á hverju ári eru nokkrar sýningar í safninu. Safnkennarar okkar leitast við að miðla sýningunum til nemenda með tilliti til Aðalnámskrá grunnskólanna.

„Listupplifun opnar farveg til að skoða og meta eigin gildi og viðhorf, á beinan eða óbeinan hátt, út frá margvíslegum leiðum og miðlum. Í listum geta nemendur rýnt í gildi samfélagsins á ólíkum tímum og mismunandi menningarsvæðum og einnig persónuleg gildi, s.s. gagnvart einstaklingum, fjölskyldu, samfélaginu, vinnu og leik, náttúru og umhverfi, fegurð, ljótleika, ofbeldi og ást“ (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 143).

Hægt er að bóka tíma á mennt@listasafn.is

Hver heimsókn tekur um klukkustund og miðað er við að hópar séu ekki stærri en sem nemur einum bekk, eða um 25 nemendur.

Verið velkomin í heimsókn.Halló, geimur!

 

Listasafn Íslands, Fríkirkjuvegur 7

Allur aldur

Á sýningunni Halló geimur eru sýnd verk úr safneign Listasafns Íslands sem öll tengjast himingeimnum á einn eða annan hátt. Sýningin er sett upp sérstaklega með börn í huga. Verkaval, miðlun og skemmtanagildi fyrir börn og fjölskyldur þeirra er sérstaklega haft að leiðarljósi og hafa sýningarstjórar sýningarinnar leitað samstarfs við skóla, fræðimenn, hönnuði og listamenn til þess að gera sýninguna sem allra aðgengilegasta og fræðandi fyrir börn.

Nánar um sýninguna:

Fjarlægar víðáttur í óendanlegum alheiminum hafa frá upphafi verið manninum hugleiknar og í aldanna rás hafa listamenn túlkað og tekist á við hugmyndir sínar um geiminn og miðlað þeim með fjölbreyttum hætti.

Framúrstefnuleg verk Finns Jónssonar, sem fyrstur Íslendinga tókst á við geiminn í verkum sínum á fyrri hluta 20. aldar, miðla óheftri tjáningu listamannsins á töfrum himintunglanna sem eru leiðarstef sýningarinnar. Leyndardómar Vetrarbrautarinnar sem aldnir spámenn afhjúpa með forsögnum sínum um veðurfar og forlög manna eru Hildigunni Birgisdóttur og Svavari Guðnasyni innblástur. Norðurljósabar Halldórs Ásgeirssonar leiftrar með litadýrð og innsetning Steinu Vasulka, Of the North, hrífur áhorfandann með sér í áhrifamikilli upplifun.
Í verkum Ásgríms Jónssonar og Guðmundar Thorsteinssonar (Muggs) frá fyrri hluta 20. aldar sjáum við hvernig himintunglin tengjast þjóðtrú og ævintýrum þar sem vættir birtast mannfólki í tunglsljósi og blessuð sólin breytir tröllum í stein þegar dagur rís. Á sýningunni eru einnig mörg verk frá 7. og 8. áratug 20. aldar þegar framfarir í geimvísindum voru stórstígar og maðurinn fór í fyrsta sinn út fyrir gufuhvolf jarðar.

Geimurinn og listin eiga það sameiginlegt að vera forvitnileg og kvik, þar er stöðug hreyfing og alltaf er maður að uppgötva eitthvað nýtt þegar maður skoðar listaverk. Með hjálp Tuma, aðalpersónu bókarinnar Rauði hatturinn og krummi eftir Ásgerði Búadóttur myndlistarmann, geta yngstu gestir safnsins skoðað sýninguna á aðgengilegan hátt, sett upp gleraugu vísindamannsins og numið nýjan fróðleik!

Markmið heimsóknar

 • Að nemendur kynnist hugtökum á borð við myndlist, vísindi, náttúra, þjóðsögur og innsetningar.
 • Að nemendur auki skilning sinn á aðferðum og efnisnotkun listamanna.
 • Að nemendur öðlist þekkingu og skilning á því viðamikla ferli sem á sér stað í listsköpun.

Heimsóknin

Tekið er á móti nemendum í anddyri Listasafns Íslands við Fríkirkjuveg 7. Fjallað er um valin verk á sýningunni þar sem nemendur eru hvattir til að spyrja spurninga og æfa sig í samtali um listsköpun, verkferla og efnisnotkun listamanna. Nemendur fá þjálfun í að tengja listaverkin við umhverfi sitt, sögu og menningu.

Heimsóknin tekur um klukkustund og miðað er við að hópar séu ekki stærri en sem nemur einum bekk, eða um 25 nemendur.

Verið velkomin í heimsókn. Hægt er að bóka tíma á mennt@listasafn.isMuggur - Guðmundur thorsteinsson


Listasafn Íslands, Fríkirkjuvegur 7

Allur aldur

Á sýningunni verður skyggnst inn í sérstæðan myndheim Muggs sem spannar víð svið: ævintýraheima þar sem fíngerðir prinsar og prinsessur dvelja í fögrum höllum, tröllaheima myrkurs og ógnar, landslag og sveitasælu á Íslandi, ferðaminningar frá framandi stöðum, náðarheim trúarinnar þar sem Kristur læknar sjúka, en einnig skoplegar og skondnar teikningar og þjóðsögur.

Markmið heimsóknar

 • Að nemendur kynnist lífi og starfi listamannsins Muggs og þeim fjölbreyttu verkum sem sýnd eru á sýningunni.
 • Að nemendur kynnist hugtökum á borð við myndlist, ævintýri, þjóðsögur og fjölbreyttur efniviður
 • Að nemendur auki skilning sinn á aðferðum og efnisnotkun listamanna.
 • Að nemendur öðlist þekkingu og skilning á því viðamikla ferli sem á sér stað í listsköpun.

Heimsóknin

Tekið er á móti nemendum í anddyri Listasafns Íslands við Fríkirkjuveg 7. Fjallað er um valin verk á sýningunni þar sem nemendur eru hvattir til að spyrja spurninga og æfa sig í samtali um listsköpun, verkferla og efnisnotkun listamanna. Nemendur fá þjálfun í að tengja listaverkin við umhverfi sitt, sögu og menningu.

Heimsóknin tekur um klukkustund og miðað er við að hópar séu ekki stærri en sem nemur einum bekk, eða um 25 nemendur.

Verið velkomin í heimsókn. Hægt er að bóka tíma á mennt@listasafn.is


Salur-2-kynningarmynd-2_1599218576840

Hvernig söfnum við myndlist?

Listasafn Íslands, Fríkirkjuvegur 7

Aldur: Grunnskóli og framhaldsskóli

Fjársjóður þjóðar / Fyrir opnum tjöldum

Í einum sýningarsal safnsins hefur verið sett upp tímabundin starfsstöð til að hlúa að verkum úr safneign og skrásetja ný verk. Nú gefst því einstakt tækifæri til að kynnast mikilvægum þætti í starfsemi höfuðsafns þjóðarinnar á sviði myndlistar, sem hefur það hlutverk að varðveita myndlistararf þjóðarinnar

Markmið heimsóknar

 • Að nemendur kynnast hugtökum á borð við safneign, varðveisla, ástandskoðun og fyrirbyggjandi forvarsla.
 • Að nemendur öðlist skilning á því viðamiklu ferli sem fer af stað þegar nýtt verk bætist í safneign.
 • Að nemendur öðlist þekkingu á ólíkum listaverkum úr safneign.
 • Að nemendur fái innsýn í störf sérfræðinga safnsins sem annast ástandsskoðun, skráningu, ljósmyndun, fyrirbyggjandi forvörslu og frágangi verka.

Heimsóknin

Tekið er á móti hópum í anddyri Listasafns Íslands, Fríkirkjuvegi 7. Safnkennari býður nemendur velkomna og fer yfir sögu og hlutverk Listasafns Íslands í stuttu máli. Eftir kynningu á safninu er farið inn í sýningarsal númer 2 og farið yfir verkferla við að varðveita myndlistararf þjóðarinnar. Skoðuð verða verk úr safneign, farið yfir verkferla listamanna og nemendur fá að fylgjast með starfsmönnum safnsins að störfum.

Heimsóknin tekur um klukkustund og miðað er við að hópar séu ekki stærri en 15-20 nemendur.

Hægt er að bóka tíma á mennt@listasafn.is


Korriro-asgrimur

Heimili listamanns / Íslenskar þjóðsögur

Safn Ásgríms Jónssonar, Bergstaðastræti 74

Aldur: 4 - 6 ára

Heimsókn á heimili og vinnustofu Ásgríms Jónssonar myndlistarmanns, við Bergstaðastræti 74. Ásgrímur skipar mikilvægan sess í íslenskri listasögu sem brautryðjandi nútímalistar á Íslandi enda oft kallaður „faðir íslenskrar landslagslistar. Á vinnustofunni er sýning á þjóðsagnamyndum listamannsins, sagnararfi sem enn lifir og varpar ljósi á líf fólks í harðbýlu landi fyrr á öldum þar sem náttúruöflin leika stórt hlutverk. Ásgrímur var fyrstur íslenskra listamanna til að myndgera sögurnar en sjálfur ólst hann upp við lestur þeirra.

Markmið heimsóknar

 • Að börnin kynnist hugtökum á borð við: Myndlist, þjóðsögur, sýning og safn.
 • Að börnin nái tengingu við menningararf sinn og íslenska listasögu.
 • Að börnin fái innsýn inn í heim listamanns, heimili hans og vinnustofu.
 • Að börnin fái innblástur út frá verkum listamanns til að skapa sitt eigið verk.

Heimsóknin

Tekið er á móti hópnum við Bergstaðastræti 74. Börnin hengja fötin sín upp og koma sér vel fyrir í stofunni hans Ásgríms. Hópurinn myndar hring og safnkennari býður þau velkomin. Þá er Ásgrímur kynntur til sögunnar og nokkrir af hans persónulegu munum skoðaðir ásamt listaverkum sem prýða stofuna og svefnherbergið hans. Safnkennari hvetur börnin til að taka virkan þátt í samtali og spyrja spurninga.

Vinnustofan hans Ásgríms er á efri hæð íbúðar og þar má sjá sýninguna Korriró og Dillidó, þjóðsagnamyndir. Börnin skoða sýninguna og velta fyrir sér sögum um drauga, álfa og tröll.

Að lokum fá börnin að spreyta sig sjálf á teikningum þar sem verk Ásgríms veita þeim innblástur. Teikningarnar taka þau með sér heim að lokinni heimsókn.

Heimsóknin tekur um klukkustund og miðað er við að hópar séu ekki stærri en 20 manns.

Hægt er að bóka tíma á mennt@listasafn.is


As

Korriró og dillidó - þjóðsagnamyndir ásgríms jónssonar

Safn Ásgríms Jónssonar,
Bergstaðastræti 74

Aldur: Grunnskóli og framhaldsskóli

Heimsókn á heimili og vinnustofu Ásgríms Jónssonar myndlistarmanns við Bergstaðastræti 74. Ásgrímur skipar mikilvægan sess í íslenskri listasögu sem brautryðjandi nútímalistar á Íslandi enda oft kallaður „faðir íslenskrar landslagslistar. Á vinnustofunni er sýning á þjóðsagnamyndum listamannsins, sagnararfi sem enn lifir og varpar ljósi á líf fólks í harðbýlu landi fyrr á öldum þar sem náttúruöflin leika stórt hlutverk. Ásgrímur var fyrstur íslenskra listamanna til að myndgera sögurnar en sjálfur ólst hann upp við lestur þeirra.

Markmið heimsóknar

 • Að nemendur kynnist hugtökum á borð við: Myndlist, þjóðsögur, sýning og safn.
 • Að nemendur nái tengingu við menningararf sinn og íslenska listasögu.
 • Að nemendur fái innsýn inn í heim listamanns, heimili hans og vinnustofu.

Heimsóknin

Tekið er á móti hópnum á Bergstaðastræti 74. Þá er Ásgrímur kynntur til sögunnar og nokkrir af hans persónulegu munum skoðaðir ásamt listaverkum sem prýða stofuna og svefnhergið hans. Safnkennari hvetur nemendur til að taka virkan þátt í samtali og spyrja spurninga.

Vinnustofan hans Ásgríms er á efri hæð íbúðar og þar má sjá sýninguna Korriró og Dillidó, þjóðsagnamyndir. Nemendur skoða sýninguna og velta um leið fyrir sér íslenskum þjóðsögum.

Heimsóknin tekur um klukkustund og miðað er við að hópar séu ekki stærri en 20 manns.


Hægt er að bóka tíma á mennt@listasafn.is