a kassen - leiðsögn JÓN B.K. RANSU

14.4.2015

Sunnudaginn 19. apríl klukkan 14:00 mun Jón B.K. Ransu, myndlistarmaður, fylgja gestum Listasafns Íslands um sýningu A KASSEN hópsins í Listasafni Íslands.

Jón B.K. Ransu er fæddur í Reykjavík árið 1967. Hann nam myndlist við AKI-Akademie voor Beelende Kunst (Dutch Art Institute) í Hollandi á árunum 1990-1995 og hefur starfað sem myndlistarmaður allar götur síðan. Ransu var listagagnrýnandi á Morgunblaðinu á árunum 2002-2010 og hefur skrifað um íslenska myndlist í alþjóðleg listtímarit og fræðirit. Ransu hefur starfað sem sýningarstjóri og myndlistarkennari og skrifað bækurnar Málverkið sem slapp út úr rammanum, 2014 og Listgildi samtímans: Handbók um samtímalist á Íslandi, 2012.

Carnegie-listverðlaunin eru mikils metin listverðlaun sem Carnegie-fjárfestingabankinn stofnaði til árið 1998 í þeim tilgangi að koma á framfæri norrænni samtímamálaralist. Á síðasta ári vann A Kassen til þriðju verðlauna og áttu meðlimir hópsins að taka þátt í sýningarferð um Norðurlöndin.

Af fjárhagslegum ástæðum varð að hætta veitingu listverðlaunanna og fresta sýningarferðinni. Samtímalistastofnunin Den Frie í Kaupmannahöfn bauð þá A Kassen að setja þar upp sérsýningu, sem nú má sjá í Listasafni Íslands. Sýningin gengur á hólm við hefðbundna list og ranghverfir skilningi okkar á hugtökum á borð við list, hefð og sýning.

Meðlimir A Kassen eru Christian Bretton-Meyer (1976), Morten Steen Hebsgaard (1977), Søren Petersen (1977) og Tommy Petersen (1975).Sýningarstjóri: Jonatan Habib Engqvist.Prenta frétt

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17