ÁHRIFAKONUR FJALLA UM ÁHRIFAKONUR

10.4.2015

Með um 70 verkum eftir 30 íslenskar listakonur, fæddum á árunum 1823 til 1940, bregður sýningin KONUR STÍGA FRAM ljósi á vitundarvakningu kvenna hér á landi og baráttu þeirra fyrir aukinni  hlutdeild í sögu íslenskrar myndlistar. Numið er staðar við þá kynslóð kvenna, sem fædd var fyrir lok fimmta áratugarins í ljósi þess að vitundarvakning þeirrar kynslóðar er enn að verki. Þetta er kynslóð mjög meðvitaðra kvenna, sem leita á nýjar slóðir til að takast á við óhefðbundna miðla og óhefðbundnar hugmyndir um stöðu listarinnar, stöðu og sérstöðu kvenna sem listamenn og láta til sín taka sem mótendur nýrrar listmenningar. Í þetta skiptið verða þær Hildur Hákonardóttir og Þorbjörg Höskuldsdóttir með gestum safnsins og ræða um menntun sína, umhverfi og leiðir þeirra í listinni. 

Þorbjörg Höskuldsdóttir var nemandi í Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1964-1968 og í Edinburgh College of Art á árunum 1968-1969.  Hildur var félagi í SÚM-hreyfingunni og stjórnaði þeim samtökum ásamt sýningasalnum við Vatnsstíg í upphafi 8. áratugarins, áður en hún varð skólastjóri Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Sem slík átti hún ríkan þátt í að veita inn í kennslu við stofnunina þeim straumum hugmyndalistar sem gengu lengst af undir heitinu nýlist, en deild með sama heiti varð ein helsta uppspretta tilraunastarfsemi á sviði myndlistar á komandi áratugum. Þar þróuðust nýjar aðferðir sem nú þykja sjálfsagðar svo sem bóklist, gjörningar og innsetningar.Hildur Hákonardóttir var meðal brautryðjenda nýfígúratífrar myndlistar á Íslandi meðan hún var enn nemandi við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn en þar dvaldi hún undir lok 7. áratugarins og fram til byrjunar þess áttunda, eftir nám við Myndlista- og handíðaskólann. Þorbjörg nýtir sér aldagamlar teikningar flórentínskra endurreisnarmeistara þar sem tíglagólf, veggir og risagluggar leiða skynjun  áhorfandans frá veruleikanum innandyra til náttúrufegurðarinnar utandyra. Honum er látið eftir að vega og meta stöðu sína og samfélagsins án þess að beinir dómar séu felldir.   

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17