ANDRÝMI Í LITUM OG TÓNUM „HÁDEGI Í PARÍS“HÁDEGISTÓNLEIKAR ÍSLENSKA FLAUTUKÓRSINS

26.10.2016

Íslenski flautukórinn og Listasafn Íslands standa fyrir hádegistónleikaröð í Listasafni Íslands. Síðasta föstudag hvers mánaðar er boðið upp á fjölbreytta tónlist til þess að vinda ofan af vinnuvikunni og endurræsa skilningarvitin. Að tónleikunum loknum býður Kaffistofa listasafnsins upp á hádegisverðartilboð. Aðgangur er ókeypis.   Tónleikarnir eru styrktir af Tónlistarsjóði Menntamálaráðuneytisins Efnisskrá:

Gabriel Fauré (1845 – 1924)                          Sicilienne op. 78                                                                        Morceau de concours André Caplet (1878 – 1925)                          Viens! Une flûte invisible soupire... Camille Saint-Saëns (1835 – 1921)               Une flûte invisible Eugène Bozza (1905 – 1991)                         Aria Lili Boulanger (1893 – 1918)                         Nocturne Maurice Ravel  (1875-1937)                           Pièce en forme de Habanera Flytjendur: Hafdís Vigfúsdóttir – flauta Hildigunnur Einarsdóttir – mezzósópran Kristján Karl Bragason – píanó Markmið samstarfs Íslenska flautukórsins og Listasafns Íslands er að koma á samtali milli safnkosts listasafnsins og sýninga þess við tónlistarlífið í landinu. Ætlunin er að færa gesti listasafnsins og tónlistarunnendur saman í nýrri upplifun í listasafninu þar sem tónlist og myndlist kallast á. Víkka út sjónarhorn listarinnar frá myndrammanum að öllu rýminu sem býr í skynjun okkar. Íslenski flautukórinn býr yfir mikilli tónlistarlegri vídd og flytur tónlist frá öllum tímabilum tónlistarsögunnar. Með hádegistónleikaröðinni er lögð áhersla á að nýta flautuna sem kammerhljóðfæri og má þar heyra tónlist í samspili við önnur hljóðfæri og smærri hljóðfærasamsetningar, allt niður í einleiksverk.   Hildigunnur Einarsdóttir mezzósópran hóf snemma tónlistarnám og söng í Barnakór Grensáskirkju undir stjórn Margrétar Pálmadóttur. Á menntaskólaárunum söng hún í Hamrahlíðarkórnum undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Hildigunnur lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík 2010 undir handleiðslu Signýjar Sæmundsdóttur og Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur. Hildigunnur sótti síðar einkatíma hjá Janet Williams í Berlín og Jóni Þorsteinssyni í Utrecht. Hún er mjög virk í kórastarfi og er meðlimur í Barbörukórnum auk þess sem hún hefur komið fram með Schola Cantorum og kór Íslensku Óperunnar og starfað við útfararsöng síðan árið 2005. Hildigunnur stjórnar, ásamt Lilju Dögg Gunnarsdóttur, Kvennakórnum Kötlu og einnig yngstu deild Stúlknakórs Reykjavíkur. Hún kemur reglulega fram sem einsöngvari með kórum og hljóðfæraleikurum og stundar auk þess nám í skapandi tónlistarmiðlun við Listaháskóla Íslands, en þar sækir hún söngtíma til Hlínar Pétursdóttur Behrens og Selmu Guðmundsdóttur. Hildigunnur var tilnefnd sem söngkona ársins til íslensku tónlistarverðlaunanna 2015 fyrir flutning sinn á lögum Karls Ottós Runólfssonar, ásamt kammerhópnum Kúbus. Hafdís Vigfúsdóttir hefur lokið burtfararprófi í flautuleik frá Tónlistarskóla Kópavogs, B.Mus. gráðum frá Listaháskóla Íslands og Konunglega Konservatoríinu í Den Haag í Hollandi, sem og fjórum diplómum í flautuleik og kammertónlist frá Konservatoríinu í Rueil-Malmaison í Frakklandi, auk mastersgráðu frá Tónlistarháskólanum í Osló. Aðalkennarar Hafdísar gegnum tíðina hafa verið þau Guðrún Birgisdóttir, Martial Nardeau, Philippe Pierlot, Juliette Hurel, Per Flemström og Tom Ottar Andreassen. Árið 2010 hlaut Hafdís önnur verðlaun í “Le Parnasse”, alþjóðlegri tónlistarkeppni í París. Hafdís hefur komið fram sem einleikari með Íslenska flautukórnum, Kammersveit Reykjavíkur, Ungfóníu, Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Á námsárunum lék hún með ýmsum hljómsveitum, m.a. Ungdomssymfonikerne, Orchestra NoVe og Norsku útvarpshljómsveitinni (KORK). Hafdís hefur frá því hún flutti heim gegnt lausamennsku við Sinfóníuhljómsveit Íslands og hljómsveit Íslensku óperunnar, auk þess að leika kammermúsík af ýmsum toga. Hún er ein stofnenda og skipuleggjanda tónlistarhátíðarinnar Bergmál á Dalvík. 

Kristján Karl Bragason 

hóf píanónám hjá Lidiu Kolosowska í Tónlistarskólanum á Dalvík og nam síðar hjá prófessor Marek Podhajski við Tónlistarskólann á Akureyri. Að námi þar loknu 2002, lærði hann hjá Halldóri Haraldssyni við Tónlistarskólann í Reykjavík. Sumarið 2005 var Kristján Erasmusskiptnemi við Staatliche Hochschule für Musik í Stuttgart hjá prófessor Shoshana Rudiakov. Þá lærði hann í fjögur ár í Frakklandi, við CNR de Versailles og CRR de Rueil-Malmaison. Kristján hóf haustið 2009 masternám við Hogeschool voor de Kunsten í Utrecht í Holllandi hjá Katia Veekmans-Cieszkowski og lauk mastersprófi í píanóleik frá Conservatorium Maastricht vorið 2012, undir handleiðslu sama kennara. Árið 2000 hlaut Kristján fyrstu verðlaun í framhaldsflokki í fyrstu píanókeppni Íslandsdeildar EPTA. Hann hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins og haldið einleikstónleika í TÍBRÁ í Salnum í Kópavogi. Kristján er meðleikari við Listaháskóla Íslands og píanókennari og meðleikari við Tónlistarskólann í Reykjavík og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Hann er einn stofnenda og skipuleggjanda tónlistarhátíðarinnar Bergmál á Dalvík.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17