Asalaus, Eirene og Borgarblómin í Listasafni Íslands

10.6.2020

Þrír listhópar frá Hinu húsinu halda saman tónleika í Listasafni Íslands, fimmtudaginn 11. júní kl. 13. Listhóparnir eru Asalaus, Eirene og Borgarblómin.Asalaus er tónlistarverkefni tónlistarkonunnar Ásu Ólafsdóttur, en það snýst um að semja tónlist og spila hana víðsvegar um borgina. Einnig verður unnið með umhverfishljóð og þau fléttuð inn í tónsmíðarnar. Flutningur verkanna verður svo tekinn upp og upptökunum dreift a netinu. Ása hefur lagt stund á ýmis hljóðfæri, s.s. píanó, gítar, orgel o.fl. en þau leika stórt hlutverk í verkefninu.Verkefnið Ειρηνη (Eirene) samanstendur af einni manneskju og einu sellói. Það er töluverður aldursmunur á þeim félögum, eða um hundrað ár, en það kemur samt ekki í veg fyrir árangursríkt samstarf þeirra. Saman munu þau útsetja og flytja verk sem flestir myndu ætla að henta ekki sellói, enda það stimplað sem klassískt hljóðfæri og fær lítið svigrúm til að fara út fyrir þann ramma. Tvíeykið mun troða upp á hinum ýmsu stöðum, eins og listasöfnum og dvalarheimilum, og mun jafnvel láta sjá sig utandyra, ef veður leyfir. Nafn verkefnisins tilkemur vegna þess að manneskjan, Eir, lærði forn-grísku og telur líklegt að þetta forn-gríska orð sé af sama stofni og nafnið. Ειρηνη þýðir friður, og Eir telur því líklegt að það tengist orðinu eirð.Borgarblómin samanstanda af þremur tónlistarkonum, Mörtu (sópran), Ólínu (píanóleikara) og Þórhildi (mezzo-sópran), sem allar eru í framhaldsnámi í klassískri tónlist. Í sumar munu þær flytja stutta tónleika á hjúkrunarheimilum og víða um Reykjavíkurborg. Þær munu kynna aðgengilega klassíska tónlist t.d. þekktar aríur eftir Mozart og Bellini ásamt því að rifja upp gömlu góðu lögin með eldri íbúum borgarinnar.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17