BARNAMENNINGARHÁTÍÐ Í LISTASAFNI ÍSLANDS

16.4.2018

ÞJÓÐSÖGUR Í LISTASAFNI ÍSLANDS Á BARNAMENNINGARHÁTÍÐ 2018

Upplestur á þjóðsögum fyrir börn inni í mögnuðu andrúmslofti sýningarinnar Korriró og Dillidó – þjóðsagnamyndir Ásgríms Jónssonar.

Kl. 13:00 hefst sögustund þar sem sögurnar af Nátttröllinu, Gilitrutt og Búkollu verða sagðar.Kl. 14:30 hefst önnur sögustund þar sem sögurnar af Unu álfkonu og Hlina Kóngssyni verða sagðar. 

Umsjón: Þuríður Blær Jóhannsdóttir, leikari og Guðmundur Felixson, leikari.Myndheimur íslenskra þjóðsagna og ævintýra sem Ásgrímur Jónsson skapaði með verkum sínum er sannkallaður töfraheimur. Álfar, tröll og draugar, sem lifað höfðu með óljósum hætti í hugskoti þjóðarinnar í rökkri baðstofunnar, tóku á sig skýra mynd í verkum Ásgríms, en hann sýndi slík verk í fyrsta sinn á Íslandi árið 1905.

Sýningin Korriró og dillidó er kærkomið tækifæri fyrir alla fjölskylduna til að kynnast þeim einstaka ævintýraheimi skrautbúinna álfa og ógnvekjandi trölla sem Ásgrímur Jónsson túlkaði af mikilli einlægni og ástríðu. Áhersla er lögð á að virkja ímyndunarafl gesta og gefa þeim kost á að njóta þessa menningararfs sem um margt getur varpað ljósi á ótta, drauma og þrár genginna kynslóða og sambúð þeirra við ógnvekjandi náttúru landsins.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17