Á næstu sumartónleikum Listasafns Sigurjóns Ólafssonar koma fram tveir Íslendingar, Hanna Loftsdóttir sellóleikari og Árni Heimir Ingólfsson semballeikari, ásamt einum efnilegasta blokkflautuleikara Bandaríkjanna, hinum 19 ára gamla Martin Bernstein, en hann hefur vakið athygli víða um heim fyrir hæfileika sína.
Þótt tónlist sú sem kennd er við barrokkskeiðið njóti mikilla vinsælda í tónleikasölum heimsins í dag, eru fjölmörg tónskáld frá þeim tímum flestum gleymd.
Á efnisskrá tónleikanna í Laugarnesi hljómar tónlist eftir fjögur af kunnustu tónskáldum barokksins frá Ítalíu og Þýskalandi, þau Arcangelo Corelli, Johann Sebastian Bach, Antonio Vivaldi og Georg Friedrich Händel. Einnig verða flutt verk eftir tvö frönsk tónskáld sem ekki hafa notið sömu hylli, þau Jean-Baptiste Barrière og Pierre Danican Philidor.Tónleikarnir hefjast að vanda klukkan 20:30 og standa í um það bil eina klukkustund. nánari upplýsingar á heimasíðu LSO