SÝNINGAR FRAMUNDAN Í LISTASAFNI ÍSLANDS

6.5.2016

Teikningar og skúlptúrar belgísku myndlistarkonunnar Berlinde de Bruyckere fæðast sem raunsæjar, anatómískar stúdíur undir áhrifum frá flæmska skólanum og þýsku endurreisninni sem hafa haft djúpstæð áhrif á verk hennar, sem og frá ímyndunarafli og ljóðrænu næmi hennar sjálfrar.

Sérstaklega eru það málverk Lucas Cranach eldri (1472-1553), sem hafa snert De Bruyckere. Um upplifun sína af verkum hans segir hún:

„Þegar ég skoða málverk hans upplifi ég hið líkamlega í þeim sem tjáningarmáta fyrir hugsanir og hugðarefni þessara persóna – ótta þeirra, ástríður, efasemdir …Allra helst tengi ég við það hvernig hann fæst við hið líkamlega, og notar hinn holdlega líkama sem táknmynd hins andlega líkama.“

Hinar kraftmiklu, afmynduðu fígúrur De Bruyckere, mennskar jafnt sem af hrossakyni, úr vaxi, feldi dýra eða hári, kalla fram frásagnir og upplifanir úr nútímanum. Gegnumgangandi í verkum hennar er ríkt innsæi sem er undirbyggt af djúptækri þekkingu á viðfangsefninu og vinnsluaðferðunum.

Ferill De Bruyckere hefur spannað þrjá áratugi en hún náði alþjóðlegri hylli á Feneyjatvíæringnum árið 2003, þar sem skúlptúrar hennar voru sýndir í ítalska skálanum. Á sýningunni í Listasafni Íslands eru skúlptúrar og teikningar frá síðustu fimmtán árum. Þetta er fyrsta sýning hennar á Íslandi.

Sýningin er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík og Listasafns Íslands. 

LJÓSMÁLUN
 7.5.2016 - 11.9.2016LJÓSMYNDIN OG MÁLVERKIÐ Í SAMTÍMANUM 

Á sýningunni Ljósmálun er gerð tilraun til að skoða ýmsar birtingarmyndir málverka í ljósmyndum úr íslenskri samtímalist. Hefðbundnar hugmyndir staðhæfa að listmiðlar séu fullkomlega aðgreindir og í eðli sínu og samsetningu einstakir. Samband ljósmyndunar og málaralistar hefur þó alla tíð verið margslungið og það er engan veginn einhlítt með hvaða móti hugmyndir og áhrif beggja miðla tvinnast saman í sjónrænni framsetningu veruleikans. Oft eru ljósmyndun og málaralist skilgreindar sem andstæður með vísun til ólíkra eiginleika, en það sem þó virðist einkenna samspil þessara miðla á okkar tímum er að málverkinu og ljósmyndinni tekst hvorugu að hrifsa til sín frumkvæðið heldur renna mörk þeirra og eiginleikar saman þegar málverkið birtist í ljósmyndinni og upphefur hana og sjálft sig um leið. 

Verkin á sýningunni eru frá tímabilinu 1965 til 2015 og eru að langstærstum hluta úr fórum Listasafns Íslands. 

Listamenn: Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Bjargey Ólafsdóttir, Daníel Þorkell Magnússon, Heimir Björgúlfsson, Hrafnkell Sigurðsson, Hreinn Friðfinnsson, Hugsteypan (Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir & Þórdís Jóhannesdóttir), Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Katrín Elvarsdóttir, Ólafur Elíasson, Ólafur Lárusson, Pétur Thomsen, Rafn Hafnfjörð, Sigurður Guðmundsson, Sigurður Árni Sigurðarson, Sigurjón Jóhannsson, Sólveig Aðalsteinsdóttir, Spessi (Sigurþór Hallbjörnsson), Svala Sigurleifsdóttir, Tumi Magnússon, Valgerður Guðlaugsdóttir, Þór Sigurþórsson.

Sýningarstjóri er Birta Guðjónsdóttir.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17