Björgunarleiðangur í Grindavík

28.11.2023

Listasafn Íslands, Listasafn Reykjanesbæjar og Þjóðminjasafn Íslands sameinuðu krafta sína að morgni dags þann 24. nóvember sl. þegar haldið var í björgunarleiðangur eftir lista- og menningarverðmætum suður í Grindavík.

Með í för voru sérfræðingar frá öllum þremur söfnum. Frá Listasafni Íslands fóru tveir forverðir, Steinunn Harðardóttir og Ólafur Ingi Jónsson, Sigurður Gunnarsson, ljósmyndari og Ingibjörg Jóhannsdóttir, safnstjóri. Frá Þjóðminjasafninu fóru Harpa Þórsdóttir, þjóðminjavörður og Ágústa Kristófersdóttir, framkvæmdastjóri safneignar ásamt fríðu föruneyti. Frá Listasafni Reykjanesbæjar fóru Helga Þórsdóttir safnstjóri og Helga Arnbjörg Pálsdóttir listfræðingur. Eggert S. Jónsson menningarfulltrúi var þá einnig með í för en hann hafði fengið leyfi bæjaryfirvalda til að fara inn í dvalarheimilið og aðra opinbera staði.


Hópurinn vann þar mikið verk og mikilvægt þar sem ríflega fjögur hundruð listaverkum var bjargað úr húsum sem voru ónýt eða ljóst var að ekki yrði settur hiti á aftur og þeim komið fyrir í varðveislurými Reykjanesbæjar. Þar af var um tuttugu málverkum bjargað frá Hjúkrunarheimilinu Víðihlíð þ.á.m. verkum eftir Jóhannes Sveinsson Kjarval og Hring Jóhannesson. Þá voru hátt í fjögur hundruð verk eftir Vilhjálm Bergsson færð í varðveislurými með aðstoð Hinriks bróður Vilhjálms.


Listasafn Íslands þakkar Þjóðminjasafninu og Listasafni Reykjanesbæjar fyrir vel heppnaðan leiðangur en þrátt fyrir gott samstarf þá óskum við þess ekki að fara aðra svona ferð á næstunni.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17