DR. SELMA JÓNSDÓTTIR, ALDARMINNING

16.8.2017

Þriðjudaginn 22. ágúst 2017 voru liðin 100 ár frá fæðingu dr. Selmu Jónsdóttur (22.08.1917-15.07.1987) listfræðings og fyrsta forstöðumanns Listasafns Íslands. Af því tilefni hefur Listasafn Íslands sett upp minningarvegg og sýningarborð til heiðurs Selmu í anddyri safnsins sem stendur til 22. október. Þar má sjá verk nokkurra listamanna af Selmu auk ljósmynda og annarra heimilda sem varpa ljósi á störf Selmu sem safnstjóra og fræðimanns.

Selma Jónsdóttir var brautryðjandi á sviði listfræði og safnastarfs hér á landi. Árið 1960 varð hún fyrst kvenna til að verja doktorsritgerð við Háskóla Íslands. Í ritgerðinni sýndi hún fram á að útskornar fjalir úr Flatatungu hefðu upprunalega verið hluti af dómsdagsmynd í býsönskum stíl frá miðöldum.

Selma veitti Listasafni Íslands forstöðu frá árinu 1950 og þar til hún lést 1987. Hún byggði upp starfsemi safnsins af þrautseigju og alúð og vann að því að safnið fengi eigið húsnæði. Fyrir baráttu hennar eignaðist safnið Fríkirkjuveg 7 árið 1972 og flutti safnið starfsemi sína þangað úr Þjóðminjasafni Íslands á árunum 1987–1988.

Auk þess að stunda rannsóknir og ritstörf á sviði miðaldalistar, hafði Selma einlægan áhuga á nútímalist og setti mark sitt á íslenskt listalíf með margþættu sýningahaldi á íslenskri og erlendri list. Í tíð Selmu jókst safnkostur Listasafns Íslands umtalsvert og eignaðist það fjölbreytt verk eftir bæði íslenska og erlenda listamenn. Þannig lagði Selma fram mikilvægan skerf til uppbyggingar metnaðarfullrar safneignar sem geymir lykilverk í íslenskri listasögu.  

______________________

Eftirtaldar aðilar hafa sameinast um að minnast dr. Selmu Jónsdóttur á afmælisárinu:

Kvennasögusafn Íslands                            

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn   

Listasafn Íslands                                             

Listfræðafélag Íslands                                     

Safnahús Borgarfjarðar                                   

Þjóðminjasafn Íslands                                     

                               

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17