Einstakt listaverkasafn afhent Listasafni Íslands

22.11.2021

Listasafn Íslands fær afhent einstakt listaverkasafn hjónanna Ingibjargar Guðmundsdóttur og Þorvaldar Guðmundssonar sem kenndur var við Síld og fisk.

Listasafn Íslands fær afhent einstakt listaverkasafn hjónanna Ingibjargar Guðmundsdóttur og Þorvaldar Guðmundssonar sem kenndur var við Síld og fisk, til framtíðarvörslu. Listaverkasafnið skartar perlum íslenskrar listasögu, ekki síst þeirra listamanna sem teljast til frumherja íslenskrar málaralistar en safnið inniheldur drjúgan hluta þeirra myndlistarmanna sem störfuðu á fyrstu áratugum síðustu aldar og kynslóðirnar samtíða þeim hjónum.

Listaverkasafnið er eign Listaverkasjóðs Þorvaldar Guðmundssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur sem stofnaður var af Ingibjörgu, ekkju Þorvaldar og börnum þeirra, Geirlaugu, Skúla og Katrínu um síðustu aldamót. Að ósk stjórnar sjóðsins og erfingja þeirra hjóna, er Listasafni Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneyti falin stjórn sjóðsins.

,,Þetta er stór dagur í sögu Listasafns Íslands, með þessari ráðstöfun einkasafns hjónanna fær þjóðin til sín einstök menningarverðmæti.“

,,Fyrir það verð ég erfingjum hjónanna, systkinunum Geirlaugu, Skúla og Katrínu ævinlega þakklát. Stórhugur og traust er það sem við sjáum í sinni skýrustu mynd hjá þeim systkinum. Okkar bíður verðugt verkefni að halda sögu okkar velgjörðarmanna á lofti því það má ekki gleyma að þeir eru líka hluti af listasögunni“ segir Harpa Þórsdóttir safnstjóri.

Listaverkasafn þeirra hjóna er einstakt en Þorvaldur var ástríðufullur safnari og kom verkum sínum fyrir í fyrirtækjum sínum, en þekktustu verk safnsins eru þau sem prýða veggina á jarðhæð Hótel Holts og gestir hótelsins hafa notið frá opnun hótelsins 1965. Fjöldi verka listaverkasafnsins er um 1400 talsins, meðal annars málverk, teikningar, grafík, skúlptúrar og lágmyndir og skipar landslagsmálverkið verðugan sess í safninu með einstökum verkum frumherja íslenskrar myndlistar s.s. Ásgríms Jónssonar, Jóhannesar Kjarval, Jóns Stefánssonar, Kristínar Jónsdóttur og Gunnlaugs Scheving svo dæmi séu tekin. Auk þeirra er fjöldi verka listamanna sem komu fram á millistríðsárunum og um miðja síðustu öld og voru virkir allt fram yfir síðustu aldamót, svo sem eftir Eirík Smith, Louisu Matthíasdóttur, Kristján Davíðsson, Tryggva Ólafsson og Veturliða Gunnarsson svo fáeinir séu nefndir.

Þorvaldur kynntist öllum listamönnum sem störfuðu á hans tíma og safn hans er gríðarlega fjölbreytt. Þorvaldur og Ingibjörg áttu stærsta einkasafnið á verkum Jóhannesar S. Kjarvals, um 400 verk, sem er þar af leiðandi langstærsti hluti einstaks listamanns í safninu. Ber sérstaklega að geta verksins Lífshlaupið frá 4. áratug síðustu aldar, sem eru veggir vinnustofu Kjarvals úr risinu á Austurstræti 12 og einstaklega dýrmætur hluti af menningararfi okkar. Í heilmiklu safni teikninga ber einnig langmest á Kjarval með ýmsu forvitnilegu og af pappírsverkum, bleki og vatnslitum er töluvert af, svo sem eftir Snorra Arinbjarnar, Jón Engilberts og Ragnar Kjartansson (eldri). Skúlptúrar eru eftir Gerði Helgadóttur auk nokkurra eftir Ásmund Sveinsson og Einar Jónsson. Erlend verk er einnig að finna í safninu, málverk og prent og ber sérstaklega að nefna olíumyndir eftir Færeysku meistarana Mikines og Ingálv av Reyni, en einnig er töluvert af grafíkverkum gerð af Emile Lassalle og Íslandsmyndum August Mayer frá leiðangri Paul Gaimard.

Listasafn Íslands mun á næstu misserum skrá þetta einstaka sérsafn og gera það aðgengilegt til sýninga og með stafrænum hætti. Stefnt er að stórri bókaútgáfu innan fárra ára um það merka og myndarlega framlag til íslenskrar listasögu sem þau hjónin Ingibjörg og Þorvaldur stóðu að.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)