FJÁRSJÓÐUR ÞJÓÐAR FYRIR OPNUM TJÖLDUM

12.5.2020

Starfsemi Listasafns Íslands byggir á umfangsmiklu safni listaverka, safneign sem er í stöðugum vexti, bæði vegna lögboðinna kaupa og rausnarlegra gjafa. Eitt mikilvægasta hlutverk safnsins sem þjóðlistasafns er að koma upp metnaðarfullu safni íslenskrar myndlistar, eins og segir í lögum um safnið, sem skal endurspegla sem best strauma og stefnur í íslenskri og alþjóðlegri myndlist á hverjum tíma.

Safneignin nemur nú um 13.500 listaverkum sem eru mjög fjölbreytt að efni og stærð og spanna samfellt alla 20. öldina og fyrstu áratugi þessarar aldar. Aðeins lítill hluti þeirra er aðgengilegur almenningi í sýningarsölum safnsins eða á sýningum í öðrum söfnum, en flest verkin eru geymd utan sjónmáls gesta. Þó má nálgast rafrænar upplýsingar um verkin á vefnum sarpur.is, sem og sjá myndir af þeim.

Listasafn Íslands hefur lengi búið við mjög þröngan húsnæðiskost, einkum hvað snertir varðveislurými og er nú svo komið að safneignin rúmast engan veginn í geymslum þess og tæpast er til þess viðunandi aðstaða að sinna verkunum á viðeigandi hátt. Til að bregðast við þessum vanda hefur verið sett upp tímabundin starfsstöð í þessum sýningarsal til að hlúa að verkunum og auðvelda starfsmönnum vinnu sína við safnkostinn. Hér gefst gestum kostur á að sjá margt af því sem iðulega fer fram fyrir luktum dyrum, fylgjast með ástandsskoðun, skráningu, ljósmyndun, fyrirbyggjandi forvörslu og frágangi verka. Nú gefst því einstakt tækifæri til að kynnast mikilvægum þætti í starfsemi höfuðsafns þjóðarinnar á sviði myndlistar, sem hefur það verkefni að varðveita myndlistararf Íslendinga.

Verkefnastjóri sýningar: Nathalie Jacqueminet

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17