Börn og fullorðnir leysa skemmtileg verkefni sem tengjast safninu og sýningunni Saga –þegar myndir tala.Björg Erlingsdóttir, verkefnastjóri fræðsludeildar, leiðir svo gesti um sýninguna þar sem allir fá að njóta sín.
Á sýningunni má sjá valin verk fjölda íslenskra samtímamyndlistarmanna auk nokkurra erlendra er endurspegla frásagnarþáttinn í íslenskri sjónmenningu. Sýningin var sýnd í Kunsthalle Recklinghausen 2014 og verður sýnd í KUMU; Samtímalistasafninu í Tallinn, Eistlandi nú í haust. Verkin á sýningunni eru valin af safnstjóra Listasafns Íslands, Halldóri Birni Runólfssyni og þýskum sýningarstjóra, Norbert Weber, og endurspeglar valið þá sýn á íslenska menningu sem hið glögga gestsauga getur veitt. Sýningin varpar ljósi á menningu þjóðar, frá innstu hugarfylgsnum til pólitískra átaka.
Sýningin er framlag Listasafns Íslands til Listahátíðar í Reykjavík.