Margrét Tryggvadóttir hlýtur Fjöruverðlaunin fyrir Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina

13.3.2024

Við óskum Margréti Tryggvadóttur innilega til hamingju með að hafa hlotið Fjöruverðlaunin í flokki barna- og unglingabókmennta fyrir bókina Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina. Í bókinni fjallar Margrét um nítján listamenn, átta konur og ellefu karla, sem öll helguðu sig listinni þrátt fyrir erfiðar aðstæður og fáar fyrirmyndir á fyrri hluta 20. aldarinnar.

 

,,Mér fannst mikilvægt að fjalla bæði um karla og konur og sem flestar gerðir myndlistar. Það hefði verið auðvelt að gera bók um sem væri bara um karla sem máluðu en mér finnst mikilvægt að sýna fjölbreytnina sem sannarlega þreifst í sköpuninni og velja listafólk sem voru frumkvöðlar fyrir ákveðinn tíma, stefnu eða miðil“ segir Margrét.

 

Margrét hafði skrifað tvær barnabækur um íslenska myndlist þegar Harpa Þórsdóttir, þáverandi safnstjóri Listasafns Íslands, hafði samband við hana með samstarf í huga.

,,Bestu hugmyndirnar verða oft til í samtali. Við vorum sammála um að íslensk börn og ungmenni þyrftu fleiri góðar bækur um íslenska myndlist. Við veltum upp ýmsum hugmyndum og úr varð bókin Íslensk myndlist og fólkið sem ruddi brautina.“

 

Bókin er unnin í samstarfi við Listasafn Íslands. Ragnheiður Vignisdóttir fræðslu- og útgáfustjóri hélt utan um samstarfið og Dagný Heiðdal listfræðingur og skráningarstjóri sá um faglegan yfirlestur. Myndir í bókina tók Sigurður Gunnarsson fagstjóri tækni og ljósmyndunar.

 

Mörg verkanna í bókinni eru til sýnis á sýningunni Viðnám í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Bókinni hefur annars verið vel tekið og vonum við að hún rati inn á sem flest heimili. ,,Það eru svo mikil lífsgæði fólgin í því að kynnast góðri myndlist og börn eiga skilið það besta.“ 

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)