Alþjóðlega safnadaginn 18. maí kl. 12:15 býður Listasafn Íslands gestum upp á hádegisleiðsögn í sal 2 ásamt innliti í geymslur safnsins.
Alþjóðlegi safnadagurinn – fjölbreytt dagskrá
Mánudagurinn 18. maí 10-17
Listasafn Íslands fagnar alþjóðlega safnadeginum og hefur opið hús fyrir gesti og gangandi frá 10-17.
Ókeypis aðgangur
Dagskrá:
Fjársjóður þjóðar í sal 1, hádegisleiðsögn og samtöl við sérfræðinga safnsins í sal 2 (Fyrir opnum tjöldum), Mats Gustafson - Að fanga kjarnann í sal 3 & 4 og Vasulka stofa í sal 5.
Fyrir opnum tjöldum - Listasafn Íslands hefur lengi búið við mjög þröngan húsnæðiskost, einkum hvað snertir varðveislurými og er nú svo komið að safneignin rúmast engan veginn í geymslum þess og tæpast er til þess viðunandi aðstaða að sinna verkunum á viðeigandi hátt.
Til að bregðast við þessum vanda hefur verið sett upp tímabundin starfsstöð í sýningarsal 2 til að hlúa að verkunum og auðvelda starfsmönnum vinnu sína við safnkostinn.
Hér gefst gestum kostur á að sjá margt af því sem iðulega fer fram fyrir luktum dyrum, fylgjast með ástandsskoðun, skráningu, ljósmyndun, fyrirbyggjandi forvörslu og frágangi verka.
Nú gefst því einstakt tækifæri til að kynnast mikilvægum þætti í starfsemi höfuðsafns þjóðarinnar á sviði myndlistar, sem hefur það verkefni að varðveita myndlistararf Íslendinga.
-Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn ár hvert þann 18. maí af
International Council of Museums (ICOM). Þátttakendur eru um 37.000 söfn í 158 löndum. Söfn um allan heim skipuleggja dagskrá þann dag, helgina eða jafnvel vikuna alla sem 18. maí ber upp á og hefur það verið gert öll árin síðan 1977.
Söfn eru jöfn: Fjölbreytni og þátttaka allra 2020
-Kaffi list - bubblur og beyglur hefur nú opnað í veitingarýminu í Listasafni Íslands. Þar er meðal annars boðið upp á súpur, salöt, bubblur og beyglur.
Verið velkomin í heimsókn!