Harpa Þórsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason

Gáfu safninu tvö málverk í tilefni sjötugsafmælis

16.5.2022

Gáfu safninu tvö málverk í tilefni sjötugsafmælis

Á dögunum færðu hjónin Auður María Aðalsteinsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason fyrrv. þingmaður Listasafni Íslands tvö málverk að gjöf eftir danska listmálarann Elof Risebye. Vilhjálmur fagnaði sjötugsafmæli sínu nýverið og vildu hjónin að safnið fengi að njóta tímamótanna.

Elof Risebye var sjálfur mikill velgjörðarmaður Listasafns Íslands því árið 1958 færði hann safninu 46 verk eftir Mugg, Guðmund Thorsteinsson að gjöf. Verkin sem þau Vilhjálmur og Auður María færa Listasafni Íslands eru Höfuð Krists og Ecce Homo. Verkin hanga uppi í kaffihúsi safnsins við Fríkirkjuveg 7 til næstu mánaðamóta. Elof Risebye var prófessor og listmálari og kenndi við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn og varð síðar forseti skólans. Risebye var mikill vinur Júlíönu Sveinsdóttur listmálara og samkvæmt frásögn Júlíönu heillaðist hann af verkum Muggs þegar hann fór með henni að skoða Íslensku listsýninguna í Charlottenborg í Kaupmannahöfn 1927 og hóf þá að safna verkum hans í Danmörku.

Listasafn Íslands þakkar þeim hjónum, Auði Maríu og Vilhjálmi fyrir þessa höfðinglegu gjöf. Á myndinni eru Harpa Þórsdóttir safnstjóri og Vilhjálmur við afhendingu listaverkanna.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 — 17, lokað á mánudögum yfir vetrartímann (1.10 — 30.4)