GAKKTU Í BÆINN!

10.8.2018

GAKKTU Í BÆINN!MENNINGARNÓTT Í LISTASAFNI ÍSLANDS 18. ÁGÚST 2018 Opnunartími safna:Listasafn Íslands við Fríkirkjuveg er opið frá kl.  10 – 23Safn Ásgríms Jónssonar er opið frá kl. 13 – 22Listasafn Sigurjóns Ólafssonar er opið frá kl. 13 – 17 Aðgangur í safnið er ókeypis þennan dag.

KRUMMI KRUNKAR Í LISTASAFNI ÍSLANDS

Kl. 14

 

Menningarnótt í Listasafni Íslands. Listasafnið iðar af lífi og býður til tónleika. Barnakór Ísaksskóla undir stjórn Sunnu Karenar Einarsdóttur, syngur falleg krummalög og allir krakkar fá afhenta viðburðadagskrá Krakkaklúbbsins Krumma.   Krakkaklúbburinn Krummi stendur fyrir fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá í hverjum mánuði þar sem kátum krökkum er boðið að fræðast um listaverkin í safneign Listasafns Íslands, skapa listaverk og leika sér í nærandi umhverfi.  Með stofnun krakkaklúbbsins vill Listasafn Íslands veita börnum og fjölskyldum þeirra tækifæri til þess að njóta góðra stunda saman á safninu. Dagskráin er vönduð og öllum er velkomið að taka þátt, sér að kostnaðarlausu. 

 

LISTAGANGA

GÖNGUFERÐ MEÐ LEIÐSÖGN Í SAFN ÁSGRÍMS JÓNSSONAR VIÐ BERGSTAÐASRÆTIKl. 16

Gönguferð frá Listasafni Íslands að heimili og vinnustofu Ásgríms Jónssonar, (1876-1958), sem var einn af okkar fyrstu listmálurum. Á leiðinni sjáum við hús sem endurspegla mismunandi stílbrigði í byggingarlist á 20. öld, þar sem fjölmargir listamenn áttu heimili og vinnustofur. Katrín Heiðar, listfræðingur leiðir gönguna. Sannkölluð menningarferð!  Lengd: 45-60 mínútur.

 

PRENT & VINIR

Kl. 13 – 20

Prent & vinir bjóða gestum og gangandi á prentverkstæði sitt í Listasafni Íslands þar sem hægt verður að kynna sér aðferðir grafíklistarinnar. Prentverkstæðið er hluti af innsetningu á sýningunni Ýmissa kvikinda líki – íslensk grafík, og er í umsjá myndlistarmannanna Leifs Ýmis Eyjólfssonar og Sigurðar Atla Sigurðssonar. Ný íslensk grafíklistaverk verða til sölu í safnbúðinni, kaffi og kleinur í boði, leynigestir verða á staðnum, lukkupakkaleikur og ýmislegt fleira skemmtilegt og spennandi í tengslum við grafíkverkstæðið.

 

POP-UP MARKAÐUR Í SAFNBÚÐ LISTASAFNS ÍSLANDS

Kl. 13 - 22

 

Safnbúð Listasafns Íslands hefur á undanförnum árum staðið fyrir útgáfu á fallegum listaverkaplakötum sem fegra veggi heimilisins. Á Menningarnótt 18. ágúst verða plakötin á sérstökum Pop-up markaði í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg 7. Ný plaköt sem slegið hafa í gegn síðustu daga ásamt eldri og sívinsælum plakötum á frábæru verði.

 

 

Hér má sjá upplýsingar um yfirstandandi sýningar. 

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17