ÍSLANDSDAGAR Í Pushkin safninu í MOSKVU

5.11.2015

Í gær hófust Íslandsdagar í Pushkin ríkislistasafninu í Moskvu og verða allan nóvember. Verkefnið er samstarfsverkefni Pushkin ríkislistasafnsins, Listasafns Íslands, menntamálaráðuneytisins og sendiráðs Íslands í Moskvu. Markmiðið er að kynna íslenska menningu en jafnframt áfangastaðinn Ísland, íslenskar vörur sem og að stuðla að góðum samskiptum Íslands og Rússlands.Á dagskrá Íslandsdaganna er m.a. sýning á þremur verkum eftir meistara íslenskrar myndlistar þá Ásgrím Jónsson, Gunnlaug Scheving og Kjarval. Málverkin koma úr sendiráðinu í Moskvu og eru í eigu þess og Listasafns Íslands.Þáttur í dagskránni verður að Dr. Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands flytur fyrirlestra um íslenska myndlist og menningu bæði í Pushkin safninu og við háskólann í Moskvu. Þá munu Natalia Halldórsdóttir, mezzósópran, og Anna Guðný Guðmundsdóttir, píanóleikari,flytja íslenska tónlist í safninu, í sendiherrabústað og í Gnessin sem er einn virtasti tónlistarskóli Rússlands. Friðrik Sigurðsson, matreiðslumeistari, bauð fjölmiðlum og öðrum gestum í opnunarmóttöku á Pushkin safninu í gær að kynnast íslenskri matvöru og matargerðarlist.Sendiherra mun síðar í mánuðinum flytja erindi um Ísland og svara spurningum. Flutt verða erindi um íslenskar bókmenntir og um ljósmyndun á Íslandi. Rússneskar söngkonur munu flytja klassísk íslensk sönglög. Einnig munu íslenskar tröllasögur verða lesnar sem hluti af barnadagskrá safnsins en bækurnar Allt um tröll og Hlunkur hafa verið gefnar út í Rússlandi.Dagskránni í Pushkin safninu lýkur 27. nóvember með árlegum upplestri á vegum sendiráðsins á bókinni Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson.

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17