Íslensk myndlist í 150 ár (1870-2020) málverk, skúlptúr, gjörningar og umhverfislist

13.12.2023

Listasafn Íslands og Endurmenntun Háskóla Íslands taka höndum saman.

Endurmenntun Háskóla Íslands og Listasafn Íslands halda námskeið um Myndlist í 150 ár.

Á þessu yfirgripsmikla námskeiði verður farið um víðan völl í þróun og mótun íslenskrar myndlistar. Sjónum verður beint að uppruna íslenskrar samtímamyndlistar á seinni hluta 19. aldarinnar, til dagsins í dag og þeirra verka sem vakið hafa heimsathygli.
Innifalið í námskeiðsverði er aðgangur að Listasafni Íslands á meðan námskeiði stendur (17. janúar - 20. mars 2024) og geta þátttakendur heimsótt Listasafn Íslands við Fríkirkjuveg og Safnahúsið við Hverfisgötu.

Sagt verður frá mótun og þróun íslenskrar myndlistar – allt frá upphafi þjóðlegra lista til alþjóðavæðingar samtímans. Sjónum verður m.a. beint að því hvernig listheimurinn mótast og samband lista og samfélags skoðað.

Meðal þeirra listamanna sem þátttakendur kynnast á námskeiðinu eru
Erró, Gerður Helgadóttir, Gjörningaklúbburinn, Hildur Hákonardóttir, Kjarval, Nína Sæmundsson, Ólöf Nordal, Roni Horn, Ragnar Kjartanssson, Rúrí, Shoplifter, Sigurður Guðmundsson málari, Þorvaldur Skúlason. Einnig er fjallað um verk ótal fleiri listamanna.

Listasafns Íslands verður heimsótt tvisvar sinnum í námskeiðinu.
Í fyrri heimsókninni fá þátttakendur þjálfun í myndlæsi í húsakynnum safnsins við Fríkirkjuveg, skoða sýningu Egils Sæbjörnssonar og hlýða á fyrirlestur um starfsemi og sögu safnsins.
Í seinni heimsókninni verður farið í Safnahúsið við Hverfisgötu. Þar verður sýningin Viðnám – samspil myndlistar og vísinda skoðuð með listfræðingi sem mun ræða nokkur lykilverk og sögu þeirra.

Á námskeiðinu er fjallað um

Upphaf íslenskrar nútímamyndlistar.
Hugtökin nútímalist og samtímalist.
Helstu listamenn þjóðarinnar.
Innlenda og alþjóðlega strauma og stefnur.
Ólíka miðla í myndlist.
Umhverfislist á Íslandi.
Kvennabaráttu og femínisma í myndlist.
Íslenska samtímalist á Feneyjatvíæringnum.
Listasafn Íslands – starfsemi, sögu og myndlæsi.


Ávinningur þinn

Aukin þekking á íslenskri myndlist.
Aukin þekking og skilningur á alþjóðlegu samhengi myndlistar á Íslandi.
Aukin þekking á starfsemi Listasafns Íslands.
Aukin færni í myndlæsi.
Aukin þekking á fjölbreyttum listmiðlum.
Aukin þekking á viðfangsefnum samtímalista.

Fyrir hverja

Fyrir öll sem hafa áhuga á myndlist og íslenskri myndlistarsögu.

Nánar um kennara

Sigrún Hrólfsdóttir hefur starfað sem myndlistarmaður frá árinu 1996 og vinnur með margvíslega miðla, málverk, teikningu, innsetningar og gjörningalist, sem fjalla um sýnileg og ósýnileg öfl í heiminum. Sigrún er einnig ein af stofnendum Gjörningaklúbbsins / The Icelandic Love Corporation. Á árunum 2021-2023 gegndi hún rannsóknarstöðu við Listasafn Reykjavíkur þar sem hún stýrði yfirlitssýningunni Rauður þráður um ævistarf Hildar Hákonardóttur (1938). Á árunum 2016-2021 var Sigrún deildarforseti myndlistardeildar Listaháskóla Íslands. Hún lærði myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Pratt University, New York og er með MA-gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands.

Æsa Sigurjónsdóttir er dósent í listfræði við Háskóla Íslands. Hún hefur skrifað um íslenska myndlist, samtímalist, ljósmyndir og listfræði. Hún hefur stýrt fjölda listsýninga m.a. í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Þjóðminjasafni Íslands, Listasafninu á Akureyri og víða erlendis. Æsa lærði sagnfræði og listfræði við Háskóla Íslands og lauk framhaldsnámi, meistara og DEA gráðu í listfræði við Sorbonne I háskólann í París.

Dagný Heiðdal er skráningarstjóri Listasafns Íslands. Hún hefur starfað á Listasafni Íslands frá árinu 2002, meðal annars við skráningu listaverka, rannsóknir, textaskrif og sýningagerð. Dagný er listfræðingur frá Háskólanum í Lundi.

Ragnheiður Vignisdóttir er fræðslu- og útgáfustjóri Listasafns Íslands. Ragnheiður hefur starfað hjá Listasafni Íslands frá 2014, við verkefnastjórn viðburða, fræðslu og útgáfu við safnið og er einn höfunda Sjónarafls – þjálfun í myndlæsi. Ragnheiður er með BA-próf í listfræði frá Háskóla Íslands. MA-gráðu í hagnýtri ritstjórn og útgáfu ásamt diplómu í Menningarmiðlun.

Aðrar upplýsingar

Kennsla fer fram í formi fyrirlestra og umræðna.
Farið verður í vettvangsferðir í Listasafn Íslands við Fríkirkjuveg og í Safnahúsið við Hverfisgötu.
Innifalið í verði er aðgangur að Listasafni Íslands á meðan námskeiðið varir


Nánar um námskeiðið á vefsíðu Endurmenntunar Háskóla Íslands

Íslensk myndlist í 150 ár (1870-2020) (endurmenntun.is)

Fjársjóður íslenskrar myndlistar

Safnið er opið alla daga frá 10 - 17