KVARTETT GAUTHIER HUBERT, CHANTAL JOFFE, JOCKUM NORDSTRÖM, TUMI MAGNÚSSON
14.1.2016
Listasafn Íslands hefur sýningadagskrá sína á nýju ári með sýningu fjögurra samtímalistamanna, þeirra Gauthiers Hubert (1967), Chantal Joffe (1969), Jockums Nordström (1963) og Tuma Magnússonar (1957). Öll vinna þau með sjálfan manninn í brennidepli. Framsetning verka þeirra snýst um listmiðilinn og sögu hans að fornu og nýju og þau ganga út frá ákveðnum sögulegum forsendum en með afar ólíkum hætti.
Gauthier Hubert tekur hugmyndlæga afstöðu til málverksins og spretta verk hans af sagnfræðilegum atvikum sem bregða skýru ljósi á starf og hugarheim listamannsins í fortíð og nútíð.
Chantal Joffe gengur gjarnan út frá sjálfri sér, sínu nánasta umhverfi. Verk hennar eru í senn nærgætin, innileg og nærgöngul.
Jockum Nordström teiknar, klippir og límir upp barnslegar myndir af samfélagi eins og það birtist okkur gjarnan í sögulegum sápuóperum um húsbændur og hjú. Undir liggur þó sori og siðleysi.
Teygðar og afmyndaðar myndir Tuma Magnússonar af líkamspörtum og hauskúpum eru nær beinar tilvísanir í myndmál sem hrekkjóttir meistarar á 16. öld beittu gegn hugmyndaþurrð samtíðarinnar.nánar um sýninguna